139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má taka undir þessi sjónarmið og vangaveltur hv. þingmanns. Það er ljóst að næsta þing eða næsti meiri hluti sem myndast í þinginu getur breytt stjórnarráðslögum eftir því sem honum þóknast, breytt þeim til baka eða gert fleiri breytingar, bæði hvað varðar fjölda ráðuneyta og hvaða ráðuneyti yfir höfuð eru starfandi í landinu. Það eru allar heimildir til þess.

Það sem býr hins vegar að baki hjá hæstv. forsætisráðherra og samherjum hennar er auðvitað að gera ferlið léttara, þ.e. að auðveldara sé að breyta ráðuneytum, leggja þau niður, sameina eða færa verkefni á milli, það sé einfaldara að gera það og ekki þurfi að fara með málið í gegnum þingið. Um það snýst þetta.

Ef ríkisstjórn treystir sér til, t.d. í upphafi kjörtímabils, að fara með allar breytingar á ráðuneytum í gegnum þingið er henni í lófa lagið að gera það; fækka ráðuneytum, fjölga ráðuneytum, sameina ráðuneyti eða sundra þeim. Það er allt hægt. Sú breyting sem hér er verið að gera felur í sér, og það er þá alveg skýrt, að ekki þarf að tala við þingið um það. Ríkisstjórnin getur ákveðið þetta við sitt borð og formlega séð raunar hæstv. forsætisráðherra einn. Ef forsætisráðherra hefur á annað borð meirihlutastuðning í þinginu á bak við sig getur hann (Forseti hringir.) gert það einn, farið með tillögur til forseta og fengið hann til að skrifa upp á.