139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það var ekki haft samráð við sjálfstæðismenn eða Sjálfstæðisflokkinn út af þessu máli. [Hlátur í þingsal.] Við áttum svo sem ekki von á því. Það hefur ekki verið gert í fyrri frumvörpum sem hæstv. forsætisráðherra hefur flutt nema í algerum undantekningartilfellum. Þetta mál er algerlega unnið á vettvangi ríkisstjórnarinnar og á vegum hennar og ekki komið til kasta annarra. Auðvitað er álitamál hvort rétt sé að standa þannig að verki. Í sumum tilvikum eins og t.d. varðandi þingsköp, stjórnarskrárbreytingar og hugsanlega lög um Stjórnarráð er ekki óeðlilegt að reynt sé að búa til einhverjar lagareglur (Forseti hringir.) sem eiga að standa til lengri tíma. Ef svo er, er auðvitað betra að gera það í samkomulagi en í ágreiningi. Það virðist ekki vera á ferðinni í þessu máli.