139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls fyrr en undir lok þessarar umræðu en sá málflutningur sem hér er hafður frammi gengur algjörlega fram af mér. Foringjaræði, hvað eru menn að tala um? Hvað er hv. þingmaður að tala um? Hún talar nánast eins og ég sé einræðisherra. Það er einmitt verið að breyta foringjaræðinu, það er verið að dreifa valdi.

Hvernig var þetta áður þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar ákváðu hlutina án samráðs við aðra? (ÁsmD: Icesave.) Hér er verið að dreifa valdi með ráðherranefndum o.fl. Er ég að sölsa undir mig völd sem forsætisráðherra? Nei, sannarlega ekki. Ég hef frekar verið að ýta verkefnum út úr ráðuneytinu, samanber Seðlabankann og ýmislegt sem fellur undir menntamálaráðuneytið o.s.frv.

Hvaða lönd eru það sem eru með skipan mála eins og ég er að mæla fyrir? Það eru Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Bretland, Írland, Þýskaland og Frakkland sem eru með sömu skipan og ég mæli fyrir varðandi breytingu á Stjórnarráðinu, fjölda ráðuneyta, verkefnatilflutning o.s.frv.; það er í höndum framkvæmdarvaldsins þar. Þetta eru kannski lönd sem við eigum ekki að taka okkur til fyrirmyndar, flestallar Norðurlandaþjóðirnar, nema Finnland, og síðan Bretland og Írland eins og ég nefndi.

Hvað segir stjórnarskráin um þetta mál, 115. gr. stjórnarskrárinnar? Hún segir að það sé forsætisráðherra með atbeina forseta sem ákveði fjölda ráðherra og skipti með þeim störfum. Það hefur að vísu ekki verið framkvæmt með þeim hætti en þetta er stjórnskipan okkar, sem er í stjórnarskránni með líkum hætti og í öllum þeim löndum sem ég taldi upp. Er ég að búa til eitthvert sérstakt fyrirkomulag hér á landi með þeirri breytingu sem ég mæli fyrir? Nei, sannarlega ekki. Þetta er í þeim löndum sem ég hef talið upp. Það er ekki verið að auka foringjaræði, það er verið að draga úr því, það er verið að dreifa valdi. Ég held að hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að kynna sér hve mörg verkefni hafa flust úr forsætisráðuneytinu eftir að ég tók við því.