139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér betur skipan Stjórnarráðsins en fram kemur í málflutningi hennar. Jafnréttismálin heyra ekki undir forsætisráðuneytið, (Gripið fram í.) það var það sem hv. þingmaður sagði. Þau heyra undir velferðarráðuneytið. Það er jú til ráðherranefnd um jafnréttismál, alveg eins og það er til ráðherranefnd um efnahagsmál í forsætisráðuneytinu, en jafnréttismál heyra undir velferðarráðuneytið. Ég held að hún ætti líka að kynna sér frumvarpið betur og út á hvað það gengur áður en hún kemur í ræðustól og út úr hennar munni kemur hver vitleysan á fætur annarri í þessari umræðu.

Ég verð að segja hv. þingmanni að kynna sér það sem verið er að gera og rímar mjög vel við það sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þ.e. að það þurfi að auka sveigjanleika og tryggja að stjórnvöld geti brugðist við breyttum aðstæðum. Það er verið að tryggja að ráðherrar sem eru með skylda málaflokka eins og efnahagsmál, fjármálaráðherra, forsætisráðherra o.fl., vinni saman að málum og ekki sé foringjaræði þannig að það séu bara tveir menn sem stjórna flokkum og eru í ríkisstjórn eða þrír sem ráði öllu. Það er verið að draga úr foringjaræði. Hv. þingmaður verður eiginlega að skilja það ef hún ætlar að halda uppi umræðu sem er málefnaleg og einhver rök eru á bak við.

Ég hvet hv. þingmann endilega til að kynna sér betur þetta frumvarp og segi einu sinni enn: Það er ekki flutt til að búa til atvinnuvegaráðuneyti. Menn eru sífellt að beina því að mér að ég sé að flytja þetta frumvarp í þeim tilgangi að búa til atvinnuvegaráðuneyti. Það eru til aðrar leiðir til þess. Ég gæti gert það með forsetaúrskurði, ég er ekki að segja að ég ætli að gera það. En hv. þingmenn vita nákvæmlega hvernig innanríkisráðuneytið var stofnað og velferðarráðuneytið og það eru engin áform um að (Forseti hringir.) standa með öðrum hætti að stofnun atvinnuvegaráðuneytis. (Gripið fram í.)