139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir þetta tímabæra frumvarp og alla þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í það í forsætisráðuneytinu og í ráðuneytunum almennt að stuðla að bættum starfsháttum og auka sveigjanleika í starfsemi Stjórnarráðsins frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Í kjölfar hrunsins var ekki vanþörf á að líta til þess sem betur mátti fara í verklagsreglum á stjórnarheimilinu. Ég ætla að leyfa mér í upphafi að minna á fjögur atriði sem nefnd eru í rannsóknarskýrslu Alþingis um það sem betur má fara, þann lærdóm sem draga má af hruninu og sem þetta frumvarp er andsvar við. Með leyfi forseta:

„Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, svo sem með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og þær skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill.

Takmarka þarf pólitískar ráðningar innan stjórnsýslunnar við aðstoðarmenn ráðherra, eins og kveðið er á um í lögum.

Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldur ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn.“

Þarna eru sett fram mikilvæg leiðarljós á þeirri vegferð sem við erum í og höfum verið frá hruni þegar við horfum fram til betri framtíðar og betri stjórnsýslu. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta stóra mál hér en ég vil þó segja að henni er alls ekki lokið. Nú er þetta mál komið inn í þingið og við tekur vinna í hv. allsherjarnefnd. Ég dreg enga dul á það að ég hlakka til þeirrar umræðu vegna þess að það er töluvert í þessum tillögum sem ég vil ræða ítarlega og mig vantar svolítið inn í umræðuna í þessu efni sem ég vil drepa á hér og mun síðan koma betur fram í umræðum í nefndinni.

Það kemur hvergi fram, frú forseti, í lögum um Stjórnarráðið að það sé pólitískur vettvangur, að þar eigi að fara fram pólitísk stefnumótun og að ráðuneytin fylgi pólitískri leiðsögn og stefnu Alþingis eins og hún birtist. Ekki heldur að byggt sé á grunnreglum lýðræðis, að valdið komi frá fólkinu en ekki embættismönnum, og ráðuneytin eru ekki eins og hver önnur stjórnsýslustofnun. Þar er í eðli sínu á ferðinni pólitísk stjórnsýsla, þetta er pólitískt framkvæmdarvald sem starfar í pólitísku umboði meiri hluta Alþingis og þar með þjóðarinnar.

Þetta virðist hins vegar vera einhvers konar feimnismál nú á tímum og eitt af því sem lagt er upp með í þessu frumvarpi er aðgreining pólitísks valds sem er fólgið í stefnumörkun ráðherra og ráðuneyta annars vegar og svo stjórnvaldshlutverkinu hins vegar. Í þeim umræðum sem þegar hafa farið fram um þetta mál hér höfum við því miður lokað augunum fyrir því að embættismannakerfið á Íslandi og embættismannakerfið í ráðuneytunum sérstaklega er hápólitískt. Það hefur alla tíð verið það. Ég sé því miður ekki betur en að með þessu frumvarpi sé það fest í sessi og að sjálfstæði þessa embættismannakerfis gagnvart almannavaldinu sé fremur styrkt en veikt.

Ég sakna þess til að mynda að ekki skuli vera um það fjallað hér að ráðherrar geti komið inn í ráðuneyti með sitt „kabinett“, ef svo má segja, með jafnvel ráðuneytisstjóra og tvo, þrjá eða fimm starfsmenn, til að fylgja eftir og vinna að stefnumörkun sem ráðherranum hefur verið falið í lýðræðislegum kosningum og hér á Alþingi að móta og framfylgja. Þetta tíðkast víða í löndunum í kringum okkur, en í þessu frumvarpi er farin allt önnur leið. Þetta tel ég að við hljótum að ræða. Ég vil koma aðeins betur að þessu hér á eftir þar sem fjallað er um aðstoðarmenn ráðherra og þær takmörkuðu heimildir sem eru í þessum lögum til að ráðherrar geti valið og ráðið sér pólitíska ráðgjafa að þar virðist gleymast hvert hlutverk ráðuneytanna er.

Það er vel að það sé skerpt á þeirri ábyrgð sem ráðherrar hafa, eins og gert er í 12.–15. gr. þessa frumvarps. Það er mjög mikilvægt. Ég sakna þess hins vegar að ekki sé að sama marki skerpt á þeirri ábyrgð sem ráðuneytin sem slík hafa, þ.e. embættismenn ráðuneyta, ráðuneytisstjórar og aðrir æðstu embættismenn ráðuneytanna. Þetta þarf að vera ákveðinn „díalógur“, ákveðin samvinna, en eins og kemur fram í 20. gr. þar sem enn er reynt að skerpa á þessari skiptingu milli pólitíkur annars vegar og stjórnsýsluhlutverksins hins vegar segir, með leyfi forseta, að ráðherra skuli „leita faglegs álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt“.

Ég skil ekki hvernig þetta á að vera í framkvæmd. Ég veit og skil nauðsyn þess að þetta sé sett þarna inn. Í næstu málsgrein er sagt að starfsmenn ráðuneyta skuli „veita ráðherra þær upplýsingar og faglegu ráðgjöf, bæði um staðreyndir og önnur atriði, sem honum er almennt þörf á til að geta sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt“. Við vitum að þetta er tilkomið af illri nauðsyn. Það er vitað og þekkt að því hefur verið leynt fyrir ráðherra sem hann hefur þurft á vitneskju að halda um og þarf að bera ábyrgð á. Við þekkjum það úr hruninu, þetta þekkjum við úr rannsóknarskýrslu Alþingis, en í þessari grein er ábyrgðin alfarið lögð á herðar ráðherranum. Í 20. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal leita faglegs álits ráðuneytis …“ Ef hann kallar ekki eftir upplýsingum um það sem hann hefur ekki hugmynd um að er í gangi ber engum skylda til að veita honum þær upplýsingar. Það sem ég er að segja er að þetta þarf að vera gagnkvæmt. Það er nauðsynlegt að taka á þessu en það þarf að taka á þessu bæði gagnvart ráðuneytinu sem slíku, skerpa það, og eins gagnvart ráðherranum, skerpa það.

Frú forseti. Það gengur miklu hraðar á tíma minn en ég ætlaði. Ég á sæti í allsherjarnefnd þannig að ég kem kannski að málinu þar líka. Þetta sama, að skerpa ábyrgð ráðherrans en ekki ráðuneytisins, kemur fram í 12.–15. gr. þar sem talið er upp hvernig ráðherrann skuli hafa eftirlit með „starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans“. Og einnig „almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum þeirra sjálfstæðu stjórnvalda sem heyra stjórnarfarslega undir hann“. Ég les þetta sem skóla og heilbrigðisstofnanir, að ráðherrann eigi að hafa eftirlit með þeim eignum sérstaklega. Í núgildandi lögum segir hins vegar að ráðuneyti hafi eftirlit með starfrækslu stofnana. Ég er ekki alveg sannfærð um að leiðbeiningum rannsóknarskýrslu Alþingis um það hvernig eigi að skerpa á ábyrgð ráðherra og stjórnsýslunnar sem heildar sé framfylgt hér á þann hátt sem ætlast var til. Ég tel að það þurfi sem sagt að skerpa líka á ábyrgð ráðuneytanna og embættismannakerfisins.

Einn stór þáttur í þessu frumvarpi varðar starfsmannahaldið. Það virðist gengið út frá því í 16. gr. að ráðuneytisstjórar sitji um alla eilífð en eins og ég sagði áðan tel ég að það skorti tilfinnanlega umræðu um að ráðuneytisstjórar komi og fari með ráðherrum. Ég tel að það sé verið að festa embættismannastjórnunina í sessi og hef þess vegna allan vara á varðandi þetta og reikna með að þetta verði rætt ítarlega í nefndinni.

Það er freistandi að ræða svolítið 18. gr. um erindisbréfin. Ég velti því fyrir mér hvort ráðuneytisstjóri eigi að fá nýtt erindisbréf með hverjum ráðherra. Ef ekki, hefði þá til að mynda Steingrímur J. Sigfússon erft erindisbréf frá hv. þm. Árna Mathiesen eða Ögmundur Jónasson frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni? Þetta er stór spurning sem ekki er svarað beint með lestri þessa frumvarps eða greinargerðar með því.

Í 22. gr. er fjallað um heimildir ráðherra til að ráða sér pólitíska ráðgjafa. Ég tel, frú forseti, að þessi grein gangi allt of skammt hvað varðar heimildir ráðherrans annars vegar og allt of langt hins vegar hvað varðar skerðingu á réttindum þeirra starfsmanna ráðuneytis sem vinna fyrir ráðherra sem aðstoðarmenn eða, eins og hér er sagt, aðstoðarmenn og væntanlegir ráðgjafar. Forsætisráðherra sagði fyrr í umræðunni að verið væri að bregðast við óumdeildri þörf ráðherra til að hafa sér við hlið pólitíska ráðgjafa. Ég lít ekki á þetta sem einhverja sérstaka þörf fyrir ráðherrann sem slíkan, heldur tel ég að það sé nauðsynlegt þegar pólitísk stefnumörkun á að fara fram í ráðuneytinu að það sé ekki eitthvað sem verði bara til í höfði eins manns. Það þarf ákveðna samvinnu og teymi. Ráðuneytin, starfsmenn, embættismenn og pólitíkin þurfa að vinna saman. Öðruvísi verður þetta ekki burðugt.

Ég tel að út úr kortinu sé tillaga um að ráðherra fylgi bara einn aðstoðarmaður og ráðgjafi til viðbótar eftir næstu kosningar, það sé allt of lítið. Ég hef nefnt áður að ég tel að við eigum að ræða hvort þetta eigi að vera eins og víða er í löndunum í kringum okkur, að ráðherrar komi og fari með sínu „kabinetti“, með tveimur, þremur, fjórum, fimm, sex mönnum, allt eftir stærð og verkefnum ráðuneyta. Eins er rétt að spyrja hvort rétt sé að veita heimildir til að skipta ráðuneytum upp þannig að það séu aðstoðarráðherrar eða fleiri ráðherrar sem sinni tilteknum verkefnum innan ráðuneyta eins og víða þekkist.

Í greinargerð, frú forseti, er fjallað um að með sterku aðstoðarmannakerfi sé auðveldara að tryggja aðgreiningu á milli hins tvíþætta hlutverks ráðherra sem stjórnvaldshafa annars vegar og pólitísks stefnumótunaraðila hins vegar. Það kerfi sem hér er gerð tillaga um, einn aðstoðarmaður og einn ráðgjafi til viðbótar eftir næstu kosningar, er veikt og vanburðugt og mun að mínu mati ekki þjóna því markmiði sem hér er lagt upp með. Ég tel þar að auki óþarft að byggja stigveldi inn í þetta, annars vegar aðstoðarmaður og hins vegar ráðgjafi. Það er óþarft að setja menn skör hærra eða lægra þegar þeir bera ekki neina stjórnskipulega ábyrgð þannig að það er að mínu viti nóg að setja þarna inn að ráðherra ráði sér einn eða fleiri aðstoðarmenn.

Ég vek athygli þingmanna á því að í núgildandi lögum er kveðið á um að launakjör aðstoðarmanna eigi að fylgja launakerfi skrifstofustjóra. Þar með er viðkomandi raðað í launaflokk og ég tel mjög mikilvægt að halda slíku ákvæði inni þannig að það verði ekki geðþóttaákvörðun ráðherra hvaða laun aðstoðarmaður hefur.

Ég vek líka athygli á því að með frumvarpinu er fellt niður ákvæði um að ríkisstarfsmenn eigi afturkvæmt til sinna fyrri starfa ef þeir hafa unnið sem aðstoðarmenn. Þar með, frú forseti, er vegið að þeim litla rétti sem ríkisstarfsmenn hafa haft til þess að hverfa aftur til sinna starfa kjósi þeir að gegna starfi sem aðstoðarmenn ráðherra. Í greinargerð er beinlínis gengið út frá því að það sé ómögulegt að hafa mann í vinnu á vegum ríkisins hafi hann verið aðstoðarmaður ráðherra. Þetta finnst mér algerlega út úr korti og ég vek athygli þingmanna af þessu tilefni á BA-ritgerð eftir Gest Pál Reynisson um aðstoðarmenn ráðherra, bakgrunn, hlutverk og frama, þar sem m.a. kemur fram að af 156 aðstoðarmönnum á árabilinu 1971–2008 hafi alls sex aðstoðarmenn hlotið skipun sem ráðuneytisstjórar strax eða fljótlega eftir að starfstíma í þágu ráðherrans lauk. Nú eru þrír ráðuneytisstjórar í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra.

Þó að ég hafi lagt áherslu á það, frú forseti, í þessari ræðu minni að gera grein fyrir því sem ég tel athugavert og umræðuvert við þetta frumvarp vil ég segja að ég styð meginefni (Forseti hringir.) þess eindregið og mun koma hér upp seinna til þess að gera grein fyrir þeim atriðum ef kallað verður eftir.