139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég heyrði ekki nógu vel eða skýrt svar hv. þingmanns við fyrra andsvari um þá stefnu sem boðuð var og samþykkt á flokksráðsfundi Vinstri grænna á Akureyri 15.–16. janúar, hvort eitthvað hefur breyst síðan að mati hv. þingmanns í stefnu Vinstri grænna þar sem samþykkt var að áform um breytingar á Stjórnarráðinu yrðu endurskoðuð. Ég skil það svo að meðal annars sé verið að tala um þetta frumvarp og hinar fyrirhuguðu breytingar.

Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann hvað hafi breyst frá atkvæðagreiðslu 13. júní 2007 þegar mér sýnist að allur þingflokkur Vinstri grænna hafi verið á móti þeim breytingum sem þá voru gerðar á stjórnarráðslögunum. Framsóknarflokkurinn var reyndar einnig á móti þeim breytingum. Þetta eru breytingar sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði í í dag og lutu meðal annars að því að hægt væri að slá saman ráðuneytum með forsetaúrskurði. Hvað hefur breyst á þeim tíma? Ég velti því fyrir mér.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann í ljósi hennar ágætu ræðu áðan hvort hana megi skilja þannig að hv. þingmaður sé á móti því að binda í frumvarpinu að ráðuneytin skuli ekki vera fleiri en tíu eins og stendur í 2. gr. Ég skil hv. þingmann þannig að meiri sveigjanleika sé þörf varðandi ráðuneytin og ég tek undir það með hv. þingmanni, ráðuneytin verða að geta verið átta, tíu eða tólf eftir því hvernig ástand þjóðmála er á hverjum tíma.