139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þá er komið á dagskrá og til umfjöllunar frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem allir vita sem hér starfa að ekki ríkir mikil sátt um meðal stjórnarflokkanna. Samt er þetta mál komið hingað og þar að auki í andstöðu eins ráðherra ríkisstjórnarinnar og með fyrirvara eða athugasemdum frá öðrum. Það er ekki mjög björgulegt.

Síðan höfum við séð í fjölmiðlum og heyrt í útvarpi og annars staðar frá í gegnum tíðina, eða frá því að þetta ráðuneytisbrölt byrjaði, ályktanir frá hinum ýmsu félögum Vinstri grænna víða um land þar sem því hefur verið mótmælt að standa eigi í þessu á meðan sótt er um aðild að Evrópusambandinu og hefur meira að segja verið kveðið býsna fast að orði. Með leyfi forseta vil ég m.a. benda á nýlegan fund sem haldinn var í svæðisfélagi Vinstri grænna á Miðsuðurlandi þar sem var ályktað að ekki ætti að standa í áformum um sameiningu ráðuneyta núna meðan viðræður um aðild að Evrópusambandinu fara fram. Ljóst er að innan annars stjórnarflokksins er verið að tengja aðildarviðræðurnar mjög sterklega við þetta frumvarp.

Eins og ég sagði áðan er á köflum í frumvarpinu verið að leggja til ágætishluti. En það sem stingur í augu er að forsætisráðherra fær gríðarlegt vald. Ég fæ ekki skilið öðruvísi en að frumvarpið, eins og það lítur út, sé lokatilraun forsætisráðherra, forsætisráðuneytisins, til að gera breytingar á Stjórnarráðinu eftir að hafa reynt að ná einhverri sátt eða málamiðlun við hinn stjórnarflokkinn frá því að núverandi ríkisstjórn tók við.

Í einstökum greinum er svo sem ýmislegt sem hægt er að staldra við. Ég ætla að byrja í þessari fyrstu ræðu á að fara örlítið í gegnum það, mun gera betur síðar. Í 2. gr. er rætt um að í ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skuli á hverjum tíma ekki vera fleiri en tíu. Það er í fyrsta lagi óráðlegt, held ég, að binda þetta með slíkum hætti því að það getur verið mikill kostur fyrir hverja ríkisstjórn að fækka annaðhvort eða fjölga í ráðuneytum eftir því sem þörf er talin á. Það er hins vegar alveg ljóst að ný ríkisstjórn getur að sjálfsögðu, hvenær sem hún tekur við, eftir tvö ár eða hvað það er, (Gripið fram í: 18 mánuði.) 18 mánuði — já, það er best að vera ekki að lengja þetta of mikið, þakka þér fyrir, hv. þingmaður — lagt fram frumvarp sem þetta og breytt þá lögum.

Þá kem ég að því sem ég hefði viljað sjá varðandi þessi mál. Gerð hefur verið tilraun meðal allra flokka til að koma þessum breytingum í ferli áður en frumvarp er lagt fram. Auðvitað er hægt að halda því fram og benda á að allir flokkar komi að málinu í þingnefndum, það er alveg hárrétt, en við vitum að í krafti meiri hlutans er hugsanlega — þótt ólíklegt sé í þessu máli — hægt að keyra málið í gegnum þingið.

Í 3. gr. segir að forseti Íslands skipi aðra ráðherra samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Þarna er undirstrikaður enn og aftur sá ásetningur að forsætisráðherra eigi að fá þetta vald.

Það er rétt sem fram hefur komið, að þessum lögum var breytt 2007 af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og þá greiddu þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna atkvæði á móti þeim breytingum. Það verður væntanlega rannsóknarefni eða þarfnast skýringa við ef þingflokkur Vinstri grænna samþykkir þetta núna. Þó svo að í frumvarpinu megi finna ágætishluti ræðum við að sjálfsögðu heildarmyndina líka.

Það er eitt sem mig langar að nefna þessu tengt, það er í skýringum með frumvarpinu, m.a. á bls. 27, þar sem verið er að vitna í skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en í raun sé verið að snúa svolítið út úr skilaboðunum í skýrslu þingmannanefndar í þessu frumvarpi. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra.“

Sagt er að á því sé tekið í frumvarpinu. Það má færa rök fyrir því en eins og ég skil þetta er einfaldlega verið að fela forsætisráðherra það vald að vasast í og ganga inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra með mjög áberandi og skýrum hætti, nái þetta fram að ganga.

Í frumvarpinu eru ýmsir kaflar sem eru ágætir. Hér hefur verið aðeins fjallað um aðstoðarmenn og slíkt.

Samkvæmt 26. gr. — ég ætla að hlaupa snöggt yfir þetta í þessari umferð — er forsætisráðherra heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Meðan ekki er skýrt, frú forseti, betur í frumvarpinu hvað felst í því valdi ráðherra að geta ráðstafað ráðuneytum þá geld ég varhuga við 26. gr. undir kaflafyrirsögninni Önnur ákvæði.

Frumvarpið frá 2007 sem hlaut hér samþykki var tiltölulega einfalt og minna í sniðum en þetta frumvarp en tók með afgerandi hætti á ákveðnum hlutum. Töluverð andstaða var við það hjá stjórnarandstöðuflokkunum á þeim tíma, Framsóknarflokki og Vinstri grænum, og geri ég þá ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, að við þurfum skýringar á því hvað hafi breyst, verði þetta samþykkt.

Það sem mér sýnist um frumvarpið sem slíkt er að með því sé ekki verið að skýra stjórnkerfið heldur jafnvel að gera það óskýrara. Það má færa fyrir því rök að sjálfstæði ráðherra sé í sjálfu sér takmarkað að því leyti að forsætisráðherra er veitt extra mikið vægi eða mikið vald, ef það má orða það svo. Það má líka velta fyrir sér, hefði forsætisráðherra þetta mikla vald, hvort við stæðum frammi fyrir því ef t.d. málefni Íbúðalánasjóðs væru núna á dagskrá, þar sem ákveðin öfl vildu gera breytingar á þeim sjóði, færa hann til eða jafnvel leggja hann niður, en fagráðherrann á þeim tíma stóð í vegi fyrir því, hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir mundi gera það að verkum að forsætisráðherra gæti höggvið á hnútinn og sagt: Jú, þetta skal vera með þessum hætti, þvert á það sem fagráðherrann vildi.

Enn má tala um hið svokallaða foringjaræði. Þingmenn hafa m.a. yfirgefið þingflokk vinstri grænna út af meintu foringjaræði, ekki bara innan þingflokksins heldur í ríkisstjórninni. Það er eitt af því sem gagnrýnt er í rannsóknarskýrslunni sem við höfum séð og kynnt okkur. Þar eru gerðar athugasemdir við það. Þess vegna skil ég ekki, frú forseti, að verið sé að auka á hið meinta eða svokallaða foringjaræði. Ég fæ ekki betur séð en að það sé gert í frumvarpinu.

Ég held að það sé mikilvægt að hafa ákveðinn sveigjanleika, en það má ekki vega að sjálfstæði ráðherranna og ráðuneytanna. Ég tel mikilvægt í því samhengi, þó svo að framkvæmdarvald og löggjafarvald eigi að vera aðskilið, að áhrif og þáttur Alþingis í því að koma að skiptingu ráðuneyta sé ekki minnkaður eða takmarkaður eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Það má velta fyrir sér formfestu í stjórnsýslu og hvort verið sé að draga úr henni. Maður veltir líka fyrir sér hvort hætta sé á að ráðherrar í öðrum ráðuneytum en forsætisráðuneytinu muni líta svo á að forsætisráðherra beri meiri ábyrgð en þeir, eins og hefur svo sem verið sýnt fram á og hann gerir að ákveðnu leyti, enda er verið að auka hana í þessu frumvarpi.

Í 4. gr. er í raun verið að undirstrika og kveða upp úr um vald ráðherra til að flytja verkefni og málefni milli ráðuneyta. Eins og ég skil þetta þarf nú samþykki Alþingis til þess eða Alþingi hefur alla vega eitthvað um það að segja. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg búinn að sökkva mér ofan í lögin sem eru í gildi og því kann þetta að vera misskilningur hjá mér, en ef svo er ekki er mikið áhyggjuefni að dregið verði úr vægi Alþingis að þessu leyti.

Í 5. gr. er rætt um einstök málefni og fleira þess háttar. Síðan má velta því fyrir sér hvort það sé raunverulegur vilji þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að undirstrika vægi eða vald framkvæmdarvaldsins með þeim hætti sem lagt er til.

Hér er vitnað í nokkrar skýrslur í rökstuðningi með frumvarpinu og eðlilegt að gera það, en við hljótum að velta fyrir okkur hvernig vinnulagi og vinnubrögðum við þann undirbúning hefur verið háttað og hverjir hafa komið þar að. Það verður áhugavert í framhaldinu að kynna sér hverjir hafa komið að þeim skýrslugerðum og þeirri nefndarskipan sem fjallað hefur um þetta fram að þessu. Eitthvað segir manni að sterk tengsl séu á milli þeirra nefnda og skýrslna sem hafa verið skrifaðar.

Það er búið að vitna hér í rannsóknarskýrslu Alþingis og ég hef einnig gert það að nokkru leyti. Í kafla 2.4 í rannsóknarskýrslunni er talað m.a. um stjórnsýsluna og að nefndin telji að gera verði breytingar á lögum og reglum til að koma í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Ég velti fyrir mér hvort eðlilegt sé að undirstrika vald forsætisráðherra til að gera nákvæmlega það. Hefur það ekki einmitt verið gagnrýnt varðandi samskipti innan þeirrar ríkisstjórnar sem sat þegar efnahagshrunið varð, og hæstv. núverandi forsætisráðherra sat m.a. í, að einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, viðskiptaráðherra, hafi ekki verið nógu mikið inni í málum á þeim tíma? Ég fæ ekki betur séð en að með þessu frumvarpi sé verið að undirstrika það og fela forsætisráðherra að taka ákvarðanir sem geta leitt til þess að slíkum vinnubrögðum verði viðhaldið. Það er að sjálfsögðu ekki til eftirbreytni og ekki gott ef svo verður.

Frú forseti. Tími minn í þessari umferð er að verða búinn. Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef sagt í andsvörum og ræðu minni, að mér er ekki að skapi að fela forsætisráðherra þetta vald. Það eru fleiri þættir sem þarf að skoða mjög vandlega, eins og fjölda ráðuneyta. En allt ber að sama brunni, þetta er hluti af ferlinu varðandi Evrópusambandið og þeim einbeitta vilja Samfylkingarinnar að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.