139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Margt í málflutningi hans og gagnrýni á þetta frumvarp átti mjög rétt á sér.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í hefur verið í umræðunni fyrr í dag. Hæstv. forsætisráðherra hefur neitað því staðfastlega að nokkur tenging sé á milli ráðuneytisbreytinga eða breytinga á Stjórnarráðinu og Evrópusambandsumsóknarinnar. Reyndar hefur hæstv. forsætisráðherra með sama hætti sagt að það sé engin tenging á milli Sóknaráætlunar 20/20 og Evrópusambandsumsóknarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í drög að ályktun sem átti að leggja fyrir sameiginlegu þingmannanefndina, Evrópuþingmanna og íslenskra þingmanna, þar sem einmitt var komið inn á rík tengsl á milli þess að sameina ráðuneyti og Evrópusambandsumsóknar. Ég veit að hv. þingmaður sendi einhvers konar bókun á þann fund og var í fjölmiðlum fyrir skömmu síðan. Mig langaði að spyrja hvort hv. þingmaður telji eðlilegt að Evrópusambandið sé að hlutast til um málefni sem tengjast skipulagi á Stjórnarráðinu, að Evrópusambandið og embættismenn í Brussel séu að skipta sér af því hvaða ráðuneyti séu starfandi hér og hvernig lögum um Stjórnarráð Íslands sé háttað.

Það væri gott ef hv. þingmaður gæti farið aðeins lauslega yfir þessi mál og reifað hver sjónarmið hans eru, hver aðdragandinn hafi verið að þessu. Voru embættismenn í Brussel með þessa pappíra eða var þetta kannski ættað beint úr forsætisráðuneytinu? Hver telur hann að rökin á bak við það séu að slíkt rati inn í drög að ályktunum sem Evrópuþingmenn og íslenskir þingmenn eru leggja fram?