139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör hvað þetta snertir. Hann vitnar þarna beint til þessara pappíra og þeirra draga, sem fyrir lá að samþykkja af þingmönnum Íslands og Evrópusambandsins, sem segja það skýrt og greinilega að þetta sé liður í því. Hví skyldu embættismenn í Brussel og Evrópuþingmenn að vera að fagna því að hér sé verið að sameina ráðuneyti, að hér sé verið að gera Stjórnarráðsbreytingar? Hver eru rökin á bak við þetta? Hver eru rökin á bak við það að Evrópusambandið leggur áherslu á að við séum að sameina ráðuneyti?

Getur verið að þetta sé einmitt ástæða þess að þetta mál er keyrt áfram af slíkum hraða? Getur verið að Evrópusambandið sé að átta sig á því að það er ekki mögulegt að halda þessu ferli áfram á sama tíma og það er ráðherra í ríkisstjórninni sem neitar að taka þátt í aðlögun að Evrópusambandinu? Hver telur hv. þingmaður að rökin á bak við það séu að Evrópusambandið, Evrópuþingmenn og embættismenn í Brussel og síðan Samfylkingin keyri þetta mál áfram með slíkum hætti og séu að setja þetta inn í opinbera pappíra sem ætlunin er að íslenskir þingmenn skrifi undir?