139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er býsna stórt spurt. Að sjálfsögðu get ég ekki dregið aðra ályktun af þessu plaggi en að það sé undirbúningur eða hluti af því aðildarferli sem er í gangi. Við vitum að Evrópusambandið hefur lagt áherslu á það undanfarið að auka miðstýringu í Brussel, að fá meiri völd frá ríkjunum þar inn og nýverið hefur verið talað um efnahagsmál. Auðvitað er þetta þá um leið hluti af því að auka foringjaræðið, auka á þau völd sem foringjarnir hafa og þeir sem stjórna í Brussel. Þetta er nátengt, það er alveg ljóst að mínu mati, frú forseti. Þetta er eitt af því sem er í þeirri ályktun sem hér um ræðir sem ég er ekki alveg viss um hvort hæstv. forsætisráðherra hafi fengið að kynnast.

Það er annað athyglisvert í þessu sem snýr að sjálfsögðu að því máli sem við ræðum hér, breytingar á ráðuneytum, að hér er talað um mikilvægi þess að undirbúa stjórnsýsluna og ekki síst í landbúnaðarmálum fyrir samþykkt eða synjun. Væntanlega vona þeir er sömdu þetta að það verði samþykkt að ganga í Evrópusambandið. Hér stendur einnig skýrum stöfum að það sé mikilvægt að Ísland haldi áfram að þróa sína stefnu og undirbúa nauðsynlegar stjórnsýslubreytingar, það stendur hér, og er sérstaklega talað um landbúnaðinn. Enn og aftur komum við að því að þetta er allt nátengt.