139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að fá hv. þingmann til þess að fara örlítið betur yfir þetta, af því að nú veit ég að hann ásamt fleiri þingmönnum sat þennan sameiginlega fund þar sem voru þingmenn Íslands og þingmenn Evrópuþingsins. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi það fyrr í umræðunni að hluti af því sem ætlunin var að álykta þar um var að Evrópusambandið fagnaði því eða þingmenn þessara tveggja þinga að verið væri að sameina ráðuneyti á Íslandi. Hæstv. forsætisráðherra hefur hafnað því að þetta tengist með nokkrum hætti.

Gæti hv. þingmaður kannski farið aðeins yfir hver er tilurð slíks plaggs og hvað gerir það að verkum að inn í þessi drög ratar eitthvað sem tengist Stjórnarráði Íslands og uppbyggingunni innan þess, hvaða ráðuneyti eru starfandi og annað? Og enn fremur hvað býr að baki hjá embættismönnum annars vegar í Stjórnarráði Íslands, í utanríkisráðuneytinu eftir atvikum og hugsanlega forsætisráðuneytinu, og hins vegar hjá Evrópusambandinu sjálfu að vera að skipta sér af því hvernig við skipuleggjum stjórnsýslu okkar og hvernig við höfum ráðuneytaskipan? Getur verið að það sé rétt sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hélt fram áðan að þetta stafaði af því að Evrópusambandið hefði ríkar áhyggjur af því að það gengi ekki nægilega vel að aðlaga íslenska stjórnsýslu í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og ekki væri nægileg jákvæðni þar á bæ fyrir því að ráðast í aðlögunarferli og slíkt? Gæti hv. þingmaður farið aðeins betur yfir þetta því að ég veit að hann sat þessa fundi.