139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef menn skoða þessi ályktunardrög sé bara tvennt í þessu: Annaðhvort hafa engir Íslendingar komið að þessu, sem er náttúrlega mjög áhugavert, það er mjög áhugavert ef þetta hefur bara komið frá Brussel, eða hitt — og ég ætla rétt að vona að einhverjir hv. stjórnmálamenn í meiri hlutanum hafi komið að þessu — að það sé bara svo komið að þeir séu komnir inn í Evrópusambandið í anda og líti svo á að það sé okkar helsta hlutverk að aðlagast því hratt og vel og fara að vilja þess eins mikið og mögulegt er.

Vegna þess að hér hefur m.a. hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og sömuleiðis hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verið legið á hálsi fyrir að hafa talað um að hér væri um aðlögun að ræða, vil ég vekja athygli á 15. punktinum í þessu skjali, sömuleiðis skýrslu sem fylgir og ég hef undir höndum og enn fremur ræðu sem flutt var af þeim Evrópuþingmanni sem fjallaði um landbúnaðarmálin. Það kemur alveg skýrt fram í öllum þessum gögnum að það þarf að aðlaga og það þarf að auka báknið í kringum landbúnaðinn til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og það á að gera það áður en greidd eru atkvæði um það hvort Ísland verður aðili. Skýrara getur þetta ekki verið.

Virðulegi forseti. Svarið við fyrirspurninni er þetta: Ég veit ekki hvernig þetta atvikaðist, en mér þykir hvort tveggja jafnslæmt, að enginn Íslendingur hafi komið að þessu og hitt að Íslendingar séu komnir svona langt í anda inn í Evrópusambandið. Annað hvort er það og hvort tveggja er slæmt.