139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar ætla að sækja stuðning við frumvarpið inn í raðir stjórnarandstöðunnar, það kæmi mér verulega á óvart ef stuðning við það væri að finna í Sjálfstæðisflokknum.

Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru. Hér er verið að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, þannig er það bara. (Gripið fram í.) Og það allra alvarlegasta er að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar þykir þetta fyndin umræða. Nú væri áhugavert að heyra hver rökin eru fyrir þessu, hvort Alþingi hafi ekki reynst nægilega skilvirk afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstjórn þegar hún hefur verið að breyta Stjórnarráðinu. Virðulegi forseti. Það er kannski þannig.

Ég hvet menn til að skoða hversu mikil umræða lá á bak við t.d. sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Ég hvet menn til að skoða hvaða gögn lágu þar til grundvallar, skýrslur, úttektir. Ljóst er að það er skoðun hæstv. ríkisstjórnar að þetta var of mikið, að of miklum tíma var eytt í þetta, að það lá of mikið til grundvallar. Það var nokkurn veginn ekki neitt.

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að Evrópusambandið er að skipta sér af málum hér og það er líka öllum ljóst að þetta frumvarp er til komið til að losna við þann ráðherra í hæstv. ríkisstjórn sem er að þvælast (Forseti hringir.) fyrir ESB-sinnum í stjórnarliðinu.