139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð og allt satt og rétt sem hún segir þegar hún hrósar mér, það er rétt.

Ég áttaði mig ekki alveg á því hvernig hv. þingmaður komst að þeirri niðurstöðu að ég hefði ekki talað um efni máls miðað við andsvar hv. þingmanns. Varðandi aðkeyptu þjónustuna hvet ég hv. þingmann til að kynna sér þá aðkeyptu þjónustu sem ég var með og hverju hún skilaði, ég held að hún (Gripið fram í.) hafi verið um 20 millj. kr., og sömuleiðis þá aðkeyptu þjónustu sem er nú komin, virðulegi forseti, og hefur verið toguð út með töngum. Ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kölluðum eftir henni og það er ágætt að bera hana saman við þá sem ég stóð fyrir. Það er sjálfsagt að nýta aðkeypta þjónustu þegar svo ber undir og ég er afskaplega stoltur af þeim ráðgjöfum sem ég fékk til hjálpar.

Ef menn eru að bregðast við hruninu með þessu frumvarpi, virðulegi forseti, eru þeir fullkomlega villtir í holtaþoku svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Varðandi samvinnu ráðherra átti ég mjög ánægjulega samvinnu við hæstv. ráðherra í þeirri ríkisstjórn. Það má segja að ég hafi átt svolítið erfitt með einn hæstv. ráðherra en við aðra, eins og t.d. hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, var bæði gott og gagnlegt samstarf. Alla jafna er það svo að þegar fólk talar saman og vill vinna saman þá gengur það upp.

Varðandi skoðanir mínar á hverju eigi að breyta held ég t.d., virðulegi forseti, og það eigi ekki bara við um stjórnkerfið heldur almennt í opinbera geiranum að skoða verði af fullri alvöru að sérstaklega yfirmenn geti ekki verið lengur en ákveðinn árafjölda í stöðu sinni og skynsamlegt sé að skipta aðilum á milli starfa og færa á milli starfa. Ég held að það sé bæði gott fyrir starfsemina og sömuleiðis fyrir viðkomandi einstaklinga. Ég held að við eigum að nálgast þetta varðandi verkefnin, að nálgast þau frá botni og upp, ef þannig má að orði komast. Við eigum að líta á þau verkefni sem (Forseti hringir.) eru hjá hinu opinbera og sjá hvort betur megi fara varðandi skipulagið. Menn gera það hins vegar ekki á hundavaði með svona frumvarpi sem tekur fyrst og fremst mið af því að (Forseti hringir.) losna þurfi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason.