139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það hefur verið mjög sérstakt að hlýða á umræðuna hér um það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram um Stjórnarráð Íslands. Vissulega hafa ræðumenn farið vítt um völl og tekið umræðuna út frá margvíslegum sjónarhornum. Það sem hefur vakið sérstaka athygli mína í umræðunni af hálfu þeirra stjórnarliða sem hafa talað, sem eru raunar ekki nema tveir, þ.e. hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, er að þær hafa mjög lagt upp úr því hvað þetta frumvarp sé ekki og um hvað frumvarpið fjallar ekki. Það er undirstrikað af þeirra hálfu að frumvarpið fjalli ekki um sameiningu ráðuneyta. Þetta er margítrekað búið að koma fram í umræðum í dag. Það er einnig lagt mikið upp úr því að þetta frumvarp fjalli ekki um foringjaræði og boði ekkert slíkt, það hafi einfaldlega ekki verið tíðkað.

Hér hafa verið dregin upp ýmis atriði sem styrkja hvort tveggja í umræðunni eða gefur þeirri skoðun byr undir í það minnsta annan vænginn að undir liggi ákveðnir þættir sem tengjast báðum þeim atriðum sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hæstv. forsætisráðherra neituðu í umræðunni í dag.

Hins vegar hefur ekki farið ýkja mikið fyrir umræðu um hvað þetta frumvarp fjallar um og hverjar helstu breytingarnar sem því fylgja eru í raun. Það má vissulega gera því ágætlega skil. Ég tek þó undir þau sjónarmið hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur þegar hún gerði ágæta grein fyrir meginlínunum í þeim breytingum sem þarna um ræðir, það er ýmislegt sem betur má fara, þó það nú væri. Það er ýmislegt í þessu frumvarpi ágætlega úr garði gert og þætti engum mikið miðað við það sem m.a. kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra þar sem þetta er afrakstur tveggja ára vinnu. Það væri eitthvað skrýtið ef ekki væri sitthvað gagnlegt að finna í slíkri vinnu eftir allt sem á undan er gengið.

Það er hins vegar ástæða til að drepa aðeins niður fæti við stærstu atriðin eins og þau eru rakin í II. kafla í athugasemdunum með frumvarpinu. Á bls. 7–8 er það talið upp og þar kemur fram að stærsta einstaka breytingin lúti að því að endurskoða skipulag Stjórnarráðsins sem snýr að því að það er lagt til með þessu frumvarpi að það verklag sem viðhaft hefur verið hér á löggjafarsamkundunni að telja ráðuneytin upp með tæmandi hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands verði lagt af. Þess í stað verði einungis ákvæði um hámarksfjölda ráðuneyta í Stjórnarráðinu, samanber 2. gr. frumvarpsins þar að lútandi.

Þetta er stóra breytingin að mati frumvarpshöfunda í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Um þetta einstaka atriði segir í athugasemd við 2. gr. að þetta sé einna veigamesta breytingin í frumvarpinu öllu, þ.e. að hverfa frá þeirri stefnu sem verið hefur að verkefni ráðuneytanna og stjórnarráðsskiptingin séu talin upp í lögum frá Alþingi.

Jafnframt þessu frumvarpi hefur hæstv. forsætisráðherra lagt fram frumvarp um breytingar á ýmsum öðrum lögum þar sem lagðar eru til breytingar á Stjórnarráðinu á þeim grunni sem hér er lagður. Um allt þetta má deila og hefur komið mjög til umræðu í dag. Ég vek þó athygli á þeim þáttum sem ég tel jákvæða og fyllilega þess virði að gefa tíma í umræðunni, þ.e. breytingar sem allsherjarnefnd mun væntanlega skoða sem hafa það markmið að efla samhæfingu starfa á milli ráðherra, ýmis ákvæði sem lúta að skyldum ráðherra o.fl. Það er líka sérstakur kafli um ráðherranefndir. Allt eru þetta þættir sem út af fyrir sig er ágætt að fá inn í löggjöf. Það sem hins vegar hvílir yfir þessu máli eru óhjákvæmilega þær spurningar sem hér hafa vaknað um það hvað valdi svo mikilli tortryggni út í þessar breytingar. Það er fullkomlega eðlilegt að þær spurningar séu uppi, ekki síst í ljósi þess hvernig mál hafa gengið á undanförnum missirum.

Það má alveg spyrja sig þeirrar spurningar í ljósi atburða hvort framlagning þessa frumvarps beri vott um það að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til þess að óbreyttu að leggja inn í þingið tillögu að lagabreytingum sem gera ráð fyrir því að fullnusta stjórnarsáttmála meirihlutaflokkanna sem gerði ráð fyrir sameiningu ráðuneyta. Það er ekkert óeðlilegt að svo sé spurt, síst í ljósi þess hvernig atburðir síðustu missira hafa endurspeglað þann ágreining sem liggur fyrir í þessum efnum. Svar hæstv. forsætisráðherra í umræðunni þegar hæstv. ráðherra var spurður hvort meiri hluti væri í þinginu fyrir stuðningi við þetta frumvarp var t.d. á þann veg að það yrði bara að koma í ljós hvort meiri hluti væri fyrir þessu máli og vitnaði til þess að einn ráðherra í ríkisstjórninni væri á móti þó að hæstv. forsætisráðherra segðist ekki gera sér grein fyrir því hvort viðkomandi ráðherra væri á móti öllum efnisatriðum í frumvarpinu. Hæstv. forsætisráðherra hefði getað bætt inn í ræðu sína þeim orðum sem komu fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan að þingflokkur Vinstri grænna er með fyrirvara á málinu. Sú yfirlýsing virtist koma hæstv. forsætisráðherra á óvart ef ég get lesið rétt í svipbrigði fólks. Ég hef verið þokkalega ágætur í því fram til þessa.

Það liggur líka fyrir að ekki einungis hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur lýst sig andvígan þessu máli og eftir því sem mér er sagt greiddi hann líka atkvæði gegn því í ríkisstjórninni. Annar ráðherra var með fyrirvara við stuðning sinn við þetta mál í ríkisstjórn. Að teknu tilliti til þessa er ekkert óeðlilegt að þessar spurningar komi upp með þeim hætti sem hefur verið mjög áberandi í umræðunni í dag. Ég vil leyfa mér að vitna til umfjöllunar hv. þáverandi þingmanns, núverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem birtist í DV í maí í fyrra um þessi efni þar sem hann fjallaði um fyrirhugaðar breytingar. Í þeirri grein benti núverandi hæstv. innanríkisráðherra á það misræmi sem er í túlkun á rannsóknarskýrslu Alþingis og niðurstöðu og mati sem kom fram í skýrslum sem forsætisráðuneytið gaf út í þessum sama mánuði, maí 2010. Með leyfi forseta ætla ég að vitna orðrétt til upphafs þessarar greinar. Ég vek athygli á því að það er núverandi hæstv. innanríkisráðherra sem tjáir sig:

„Sannast sagna hélt ég að flestir sæju að skortur á gagnsæi og lýðræði ættu drjúgan þátt í efnahagshruninu. Hjarðhegðun hefur líka verið nefnd og tvíburasystir hennar, forræðishyggjan. Hvarvetna þar sem fólk kemur saman til að ræða nýútkomna rannsóknarskýrslu ber þetta hæst. Ekki þó hjá öllum. Ekki hjá starfshópi forsætisráðuneytisins sem í lok síðustu viku skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar um breytta og bætta stjórnsýslu með hliðsjón af efnahagshruninu og lærdómum sem af því hafa verið dregnir. ...

En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“; aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt, yfirvald beri að styrkja.“

Í ljósi þessara orða er eins og ég hef áður sagt í ræðu minni ekki óeðlilegt þó að þingmenn hafi í umræðum um þetta mál uppi efasemdir um þann stuðning sem þetta mál hefur á þinginu. Ég held að það sé mjög vafasamt að dyggur meiri hluti sé fyrir þessu og dreg raunar í efa að svo sé.

Ef ríkisstjórnin hefði unnið þetta mál samkvæmt Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa hefði það örugglega ekki komið til þingsins með þeim hætti sem hér greinir. Ég hef áður gert það að umtalsefni að frumvörp frá einstökum ráðherrum taka ekki mið af þeim starfsreglum sem dregnar hafa verið upp og samþykktar og er að finna í handbókinni sem ég gat um. Það færi betur að mál væru unnin samkvæmt þeim reglum sem þar eru settar fram og stjórnsýslan hefur sett sér að fylgja.

Ég ítreka það sjónarmið mitt að fyrir hendi er ákveðið regluverk innan Stjórnarráðsins sem því miður er bara ekki fylgt. Þess í stað reyna menn oft og tíðum að að búa til og finna upp hjólið á nýjan leik sem er í mörgum tilfellum algjör óþarfi.

Þessi handbók á að tryggja að pólitískt samkomulag sé um meginlínur í fyrirhugaðri löggjöf, einstökum frumvörpum frá einstökum ráðuneytum, áður en byrjað er að vinna við frumvarpið sjálft með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Ef þessu væri fylgt værum við oftar en ekki í allt annarri stöðu til að taka á þeim málum sem koma frá ríkisstjórninni.

Það má líka nefna það sem hefur komið fram í umræðunni um að það þurfi að styrkja ráðherraábyrgð, auka sveigjanleika o.s.frv. Þá má líka segja að ekki hefur fyrirkomulagið og skipan þessara mála eins og nú er háttað í lögum komið í veg fyrir miklar breytingar sem hafa verið gerðar. Ég minni þó ekki væri nema á það stóra mál sem neyðarlögin voru. Það tók Alþingi ekki langan tíma að ganga frá því. Hér hefur verið nefnd uppstokkun ráðuneyta og fleira því um líkt sem hefur ekkert vafist fyrir okkur. Á mínum skamma þingtíma, rúmum þremur árum, hef ég upplifað ótal breytingar á Stjórnarráðinu. Í mínum huga snýst þetta miklu fremur um það hvernig fólk kýs að vinna og fylgja þeim fyrirmælum sem þegar eru skrifuð í reglurnar okkar í stað þess að búa til eitthvert dæmi sem kemur ófullburða að mínu mati inn í þingsal og gerir meira til að (Forseti hringir.) efna til ófriðar en að stilla og lægja einhverjar ófriðaröldur.