139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Bragi Sveinssyni hans innkomu hér. Af því að hv. þingmaður sagði að ég væri ekki nógu ákveðinn í skoðunum skal ég vera mjög afdráttarlaus í því að frumvarpið eins og það er búið í hendur þingsins er gjörsamlega ótækt. Þó ekki væri nema af þeirri ástæðu að það er enginn samhljómur meðal ríkisstjórnarflokkanna um það á hvaða leið þeir eru með frumvarpinu. Það er hæstv. forsætisráðherra sjálfur sem mælir fyrir frumvarpinu. Hann hefur með öðrum orðum ekki meirihlutastuðning við málatilbúnað sinn. Þetta er oddviti ríkisstjórnar Íslands sem þvingar inn í þingið einhverju sem hann veit ekki hvernig hann ætlar að fara með. Þetta eru í mínum huga gjörsamlega óásættanleg vinnubrögð og alls ekki í boði á þeim tímum sem við lifum núna, þetta er liður í því að fíra upp einhverri spennu og moldviðri meðan unnið er að einhverjum öðrum hlutum. Ég óttast að það sé gert.

Varðandi þær fyrirhuguðu sameiningar sem þarna um ræðir hef ég alla tíð verið andvígur þeirri sameiningu sem ráðgerð var í þessu atvinnuvegaráðuneyti. Það kann vel að vera að sú andstaða mín byggist meira á því að ég treysti ekki þeirri stjórnarstefnu sem rekin er varðandi þá málaflokka sem þar eru vistaðir í dag. En umræðan eins og hún liggur og hefur verið um þetta mál ber þess vitni og styrkir mig í efanum um að réttmætt sé að fara með þetta mál svona fram.

Ef Samfylkingin og stefna hennar í þessum efnum á að ráða vitum við báðir, ég og hv. þingmaður, hvernig sjávarútveginum, þessum grunnatvinnuvegi, reiðir af í því ráðuneyti. Við þekkjum hugmyndir Samfylkingarinnar um það hvernig hún vill nálgast og breyta sjávarútveginum. Þær hugmyndir eru meira til skaða en til gagns. (Forseti hringir.)