139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann fór yfir ýmislegt sem tengist þessu frumvarpi og velti almennt vöngum yfir þeirri umræðu sem verið hefur um foringjaræði og annað því um líkt og eins stöðu forustumanna ríkisstjórnarinnar þegar að því kemur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Nú er þetta gríðarlega mikið frumvarp og ansi miklar og róttækar breytingar í þessum málum. Hv. þingmaður fór hér inn á rannsóknarskýrsluna, og sérstaklega það hvernig frumvörp af þessu tagi verða til og hvernig vinna þarf að fara fram, hvaða greining og annað. Telur hv. þingmaður að þetta séu vinnubrögðin í aðdraganda frumvarpa og eru þau þá í takt við þær breytingar sem hv. þingmaður hefði viljað sjá verða á Alþingi Íslendinga? Við vitum að aðdragandi frumvarpsins er ekki með þeim hætti.

Mig langar síðan að spyrja hv. þingmann, af því að það kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að það lægi eiginlega ljóst fyrir að ekki væri stuðningur við frumvarpið eins og það er meðal meiri hluta í ríkisstjórn, hvort hann telji að innan stjórnarandstöðunnar sé mikill stuðningur við málið eins og það er í dag og hvort hann verði var við þá fersku vinda sem sagt er að leiki um málið, eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Nú tilheyrir hv. þingmaður stjórnarandstöðuflokki og mig langaði að forvitnast um hvernig málum væri háttað þar innan búðar og hvernig hann mæti stöðuna hvað það snerti.