139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni andsvarið eða spurningarnar.

Varðandi aðdraganda frumvarpsins kom það fram hjá hæstv. forsætisráðherra að mikið hefði verið unnið í þessu máli, alla vega í tvö ár. Það er þá augljóst að vinnan á sér ekki upptök í niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis en frumvarpið var kynnt til sögunnar á eins árs afmæli hennar. Það var greinilega búið að vinna ákveðna vinnu áður en niðurstöður rannsóknarskýrslunnar komu til, þ.e. hvað þetta frumvarp ætti að innihalda.

Það hefur líka komið fram gagnrýni á það að menn hafi ekki fylgt eftir ágætri handbók um það hvernig menn eigi að vinna frumvörp frá grunni. Ég held að þeir fersku vindar sem hv. þingmaður nefndi ættu kannski að snúast um þá fagmennsku að menn nýttu það sem við ættum í handraðanum og væri gott, eins og til að mynda hin umtalaða handbók og hvernig á að vinna frumvörp.

Ég veit svo sem ekki hvort ég á að nefna það sem ég hélt fram í ræðu minni að það væri sérstakt að hæstv. forsætisráðherra legði fram frumvarp um ekki minna mál en breytingar á Stjórnarráðinu án þess að hafa til þess meirihlutastuðning. Hún lýsti því hér yfir sjálf í ræðu í dag að það yrði bara að koma í ljós. Ég hef ekki orðið var við stuðning innan stjórnarandstöðunnar fyrir þessu máli og kæmi mér satt best að segja á óvart að þar mundu margir dúkka upp sem teldu að þetta væri ljómandi gott vegna þess einfaldlega að það eru það margir ágallar á frumvarpinu. Ég held að þeir eigi eftir að (Forseti hringir.) verða til þess að annaðhvort þurfi að vinna frumvarpið frá upphafi, og mun betur, eða að það verði ekki samþykkt að óbreyttu.