139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé áhugaverður vinkill að velta aðeins fyrir sér. Ég hef nokkuð oft komið hingað upp í pontu og reynt að láta menn muna að það eru tvö stjórnsýslustig í landinu, annað þeirra fer með 30% vald í fjármálum hins opinbera, þ.e. sveitarfélögin, og hins vegar er það ríkisvaldið, ríkisstjórnin og löggjafarvaldið að einhverju leyti sem fer þá með 70%. Við ræddum hér síðast í gær ríkisfjármál eða lokafjárlög, hversu ólíkt þetta umhverfi er. Ég held að ríkisvaldið ætti kannski að taka sveitarstjórnarstigið sér til eftirbreytni í þessu.

Við höfum verið nokkuð dugleg hér á þingi að setja sveitarstjórnarstiginu nokkuð harðan ramma til að fylgja og fara eftir en gerum það ekki við ríkisstjórnina — eða ríkisstjórnin gerir það ekki, hér er auðvitað stjórnað í krafti meirihlutavalds, framkvæmdarvaldið hefur lengi haft tögl og hagldir. Ég held að það sé ástæðan, embættismennirnir hafa bara haldið áfram og lagt til sínar eigin leiðir en fóru ekki eftir þingmannaskýrslunni. (Forseti hringir.)

Til að mynda var lagt til að setja upp lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu en ekki í þinginu (Forseti hringir.) sem var þó tillaga þingmannanefndarinnar, svo að dæmi sé tekið.