139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:26]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á meðan á ræðu hv. þingmanns stóð lúslas ég í annað eða þriðja skiptið þetta frumvarp frá hæstv. forsætisráðherra og leitaði að textanum „og með samþykkt þessa máls er Ísland orðið aðili að ESB“. Það er hins vegar engin slík setning í þessu frumvarpi. Og það er ekkert í því um að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar.

Af ræðu hv. þingmanns að ráða hlýtur þetta að vera frábært frumvarp vegna þess að hann fjallaði ekkert eða nánast ekkert um efnisatriði þess eða hvað það væri nákvæmlega sem hann vildi sjá öðruvísi háttað.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um Evrópusambandið í ræðu sinni um þetta mál og því langar mig að spyrja hann: Er það ekki alveg kristaltært, eins og ég held reyndar að allir viti, að Ísland getur ekki orðið aðili að Evrópusambandinu nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu? Er hv. þingmaður ekki tilbúinn til að svara þessari spurningu játandi? Hún er mjög einföld og skýr: Getur Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu bakdyramegin? Er mögulegt að Ísland verði með einhverjum dularfullum hætti og lagafrumvörpum eins og þessu aðlagað Evrópusambandinu án þess að þjóðin komi þar að?

Hvernig getur hv. þingmaður, sem var mikill stuðningsmaður þess að Icesave-samningarnir færu í þjóðaratkvæðagreiðslu, stutt þá þjóðaratkvæðagreiðslu og fylgt þeirri niðurstöðu en á sama tíma verið andvígur því að Evrópusambandsaðildin gangi sinn feril á enda og þjóðin ráði að lokum niðurlögum þess máls?