139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að ég er stundum ákaflega glámskyggn þegar kemur að svona pólitískri djúpsálarfræði. Ég skal líka viðurkenna að mér var t.d. ekki alveg ljóst í upphafi þessarar umræðu hvort það væri rétt sem hefur komið fram í allmörgum ræðum í dag, að það séu bein tengsl á milli hugmyndarinnar um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og þessa frumvarps.

Þá rak ég allt í einu augun í plagg sem ég var búinn að lesa áður en eitthvað hafði mér skotist yfir í því og ég ekki tekið eftir að í því voru drög að ályktun sem var lögð fram á sameiginlegum þingmannafundi ESB og þingmanna frá Alþingi sem undirbúið var af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í þessari þingmannanefnd ásamt Evrópusambandinu. Þá sá ég auðvitað að ESB sjálfur hafði talað.

Þar var sérstakur liður sem er svona í lauslegri þýðingu minni:

„Geta Íslands til að takast á hendur skuldbindingar vegna aðildar að ESB.“

Undir þessum dagskrárlið segir, líka í lauslegri endursögn minni:

„Fagnað er þeim úrbótum á stjórnsýslunni sem nú fara fram, sérstaklega sameiningu ráðuneytanna á Íslandi.“

Ég ætla í sjálfu sér ekkert að leggja dóma á það hvort það séu þessi beinu tengsl en nú hefur stóri bróðir frá Brussel talað með tilstyrk forustufólks ríkisstjórnarinnar í þessari þingmannanefnd þannig að mér sýnist einhvern veginn það komið á daginn sem hér hefur verið sagt.

Mig langaði meira til að spyrja hv. þingmann sem var innanbúðarmaður í VG, m.a. þegar þetta frumvarp var samþykkt á þeim bænum með fyrirvörum: Hver telur hann að sé pólitísk staða frumvarpsins? Nú liggja fyrir upplýsingar um fyrirvara tveggja ráðherra. Eins og kom fram í andsvörum við mig áðan liggur líka fyrir fyrirvari annars stjórnarflokksins, ekki við einstakar efnisgreinar heldur við málið í heild, og þingflokkur VG er m.a. skipaður (Forseti hringir.) einum fimm ráðherrum. Hver er þá eiginlega hin pólitíska staða þessa máls?