139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður bendir á að menn hafi áhyggjur af pólitískri stöðu málsins. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að kannski væri hægt að sinna mikilvægari málum en að eyða tíma í eitthvað sem er hugsanlega ekki stuðningur fyrir. Þetta er lagt fram sem stjórnarfrumvarp þó svo að einn hæstv. ráðherra hafi lýst yfir andstöðu við frumvarpið og annar gert við það fyrirvara en ekki lagst gegn því að það sé lagt fram. Síðan kemur fram að þingflokkur Vinstri grænna í heild sinni gerir athugasemdir við framlagningu frumvarpsins og setur fyrirvara við frumvarpið. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að breyta þarf 545 lagagreinum sem eru í raun og veru bandormur með frumvarpinu. Það kostar töluverða vinnu og orku, tíma og peninga að gera það. Þess vegna hefði ég talið að nær væri að vinna málið betur þó að ég sé ekki að gera neinar athugasemdir við það. En auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra leggi fram þau frumvörp sem henni finnst hún þurfa að gera. (Forseti hringir.)