139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað hefði verið mikið heppilegra að þetta mál væri unnið eins og öll önnur sem hægt er að vinna þverpólitískt, það gefur augaleið. Hvað varðar þessar breytingar á Stjórnarráðinu tel ég að ef menn hefðu lagt sig fram við að ná saman um það mál hefði ugglaust mátt gera mikið betur. Eins og ég fór yfir í ræðu minni þá tel ég ákveðinn hluta í þessu frumvarpi mjög skynsamlegan en mér finnst ekki vera gengið nógu langt, ég vil ganga lengra í þeim atriðum.

Í sambandi við það sem hv. þingmaður rakti í handbók um meðferð og samningu lagafrumvarpa þá man ég eftir því að þegar stjórnarráðsfrumvarp um breytingarnar á sameiningu á þremur ráðuneytum var lagt fram í fyrra, það var klárað á vorþinginu 2010, var því heitið af stjórnarmeirihlutanum eða forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að sumarið yrði nýtt í að vinna málið sameiginlega á breiðum pólitískum grunni í hv. allsherjarnefnd. Það var ekki gert. Síðan var í ofboði, þegar þingið kom saman í byrjun september, komið með breytingar á ráðuneytunum og þær keyrðar í gegn fyrir nýtt þing 1. október. Auðvitað hefði verið æskilegt að ná meiri pólitískri samstöðu um afgreiðslu málsins. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. Það er alltaf best að reyna að ná sem mestri samstöðu og oft og tíðum, eins og hv. þingmaður þekkir, þegar menn vinna í smærri hópum í nefndum og annars staðar og undirhópum þá er umræðan málefnalegri en í þingsal þannig að það skilar betri árangri en að henda þessu svona inn.