139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef setið og fylgst með umræðunni í allan dag, eins og hv. þingmaður, og hef ekki orðið var við marga stjórnarandstæðinga sem hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. En ég vil benda hv. þingmanni á að frumvarpið á eftir að fara í efnislega meðferð í hv. allsherjarnefnd. Þar getur það hugsanlega tekið breytingum. Ég er hins vegar alveg sammála því sem hv. þingmaður segir, að það þurfi að taka mjög miklum breytingum, a.m.k. til að ég muni prívat og persónulega styðja það. En ég vil samt halda því til haga til að vera sanngjarn að mér líst ágætlega á sumt í þessu frumvarpi þó að ég vilji reyndar ganga miklu lengra en gert er. Ég tel mjög skynsamlegt og fór mjög rækilega yfir það í ræðu minni hvernig ráða ætti inn í Stjórnarráðið. Frumvarpið er ekki alslæmt.