139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um þetta frumvarp um Stjórnarráð Íslands hefur staðið í sex klukkutíma, það fer að nálgast venjulegan átta tíma vinnudag. Einhvern veginn hefði maður ímyndað sér það við upphaf þessarar umræðu að hún yrði frekar til að skýra þetta mál, ekki síst þegar svo háttar til að hún hefur staðið lengi og haldnar hafa verið ágætar ræður mestan part dagsins og út af fyrir sig ekki mikið við þær að athuga að því leytinu til að þær hafa verið málefnalegar þó að auðvitað megi deila um einstök atriði sem komið hafa fram í ræðunum.

Gallinn við umræðuna er hins vegar sá að hún hefur ekki svarað spurningum, hún hefur vakið spurningar, ýmsar spurningar sem maður gerði sér ekki grein fyrir að mundu vakna vegna þess að margt hefur verið að leiðast fram í umræðunni sem veldur því að maður verður eiginlega eitt spurningarmerki við að lesa frumvarpið í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið.

Fyrsta spurningin sem vaknar strax í dag er þessi: Er þetta stjórnarfrumvarp? Nú liggur það fyrir, og hefur komið fram í fjölmiðlum, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bókaði andstöðu sína við málið í ríkisstjórninni. Nú er það ekki orðið einsdæmi að einstakir ráðherrar bóki andstöðu við tiltekin mál, jafnvel mál af stærstu gerð innan ríkisstjórnarinnar. Hæstv innanríkisráðherra sat hjá við afgreiðslu málsins og þá vaknar spurningin: Er þetta stjórnarfrumvarp? Nú má auðvitað deila um það. Ég sé að í þingskjölum er þetta mál skráð sem stjórnarfrumvarp og þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvernig lítur hæstv. forsætisráðherra á þetta mál? Hvenær eru stjórnarfrumvörp stjórnarfrumvörp? Hvenær eru frumvörp sem koma frá einhverjum hluta ríkisstjórnarinnar stjórnarfrumvörp? Hvað þarf marga ráðherra til að hæstv. ráðherra treysti sér til að leggja það fram hér á Alþingi og kalla það stjórnarfrumvarp? Þarf einn ráðherra? Þarf meiri hluta ráðherra? Þarf þrjá ráðherra eða hversu marga? Hver er hin raunverulega eiginlega skilgreining á því hvenær um er að ræða stjórnarfrumvarp?

Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta vera aukaatriði en þetta skiptir þó mjög miklu máli, alveg sérstaklega vegna þess að við erum að ræða um grundvallarfrumvarp sem snertir sjálft framkvæmdarvaldið, Stjórnarráð Íslands, eina meginstoð okkar stjórnskipunar, sjálft Stjórnarráð Íslands. Þá skiptir það grundvallarmáli hvort á bak við það frumvarp sem hér er verið að leggja fram sé raunverulegur pólitískur meiri hluti á Alþingi.

Við vitum að staðan er einfaldlega sú að ríkisstjórnin býr í dag við mjög nauman meiri hluta, minnsta mögulega meiri hluta. Þegar fyrir liggur að einn hæstv. ráðherra er á móti málinu og annar hæstv. ráðherra vill ekki standa að því þá er málið komið í fullkomið uppnám. Hæstv. forsætisráðherra reyndi þá að sannfæra okkur um að þetta væri allt í lagi, hún ætti von á stuðningi úr stjórnarandstöðunni. Ég hef verið hér mestan part dagsins og hlustað á umræðurnar og ekki orðið var við það sjónarmið koma frá einum einasta stjórnarandstöðuþingmanni sem hefur talað. Við hljótum því að kalla eftir því frá hæstv. forsætisráðherra hvort ástæða sé til að ætla að á bak við þetta mál sé pólitískur meiri hluti.

Það hefur komið fram í þessari umræðu, og hefur þá líka vakið aðrar spurningar, að málið var afgreitt úr þingflokki Vinstri grænna, annars stjórnarflokksins, með fyrirvara. Nú þekki ég af gamalli reynslu að það hefur oft verið þannig um einstök stjórnarfrumvörp að þau eru afgreidd með fyrirvara einstakra þingmanna við einstakar greinar en ekki að frumvarp af þessu taginu, sem kallað er stjórnarfrumvarp, sé afgreitt út úr öðrum stjórnarflokknum og framlagning þess heimiluð, eins og var greint frá í dag, á meðan hinn stjórnarflokkurinn afgreiðir það með þessum fyrirvörum. Og gáum nú að. Hverjir skipa þingflokk Vinstri grænna? Það eru fimm ráðherrar úr ríkisstjórninni og þá liggur fyrir að þetta hefur verið afgreitt úr þingflokknum með fyrirvara þeirra um frumvarpið í heild sinni. Það er því augljóst að frumvarpið er hvorki fugl né fiskur. Það er fljótandi um í algerri óvissu og eins og ég nefndi áðan hefur verið lagt af stað með frumvarp til laga um sjálft Stjórnarráð Íslands eins og verið væri að fara einhverja pólitíska óvissuferð, með þetta mikla mál. Þessi vinnubrögð eru ekki líðandi og eru gersamlega út í hött.

Hæstv. forsætisráðherra fór í sérstaka herferð áðan til að segja okkur að frumvarpinu væri ekki beint gegn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En eftir því sem svardagar hæstv. forsætisráðherra urðu fleiri þeim mun augljósara varð að hverjum frumvarpinu er beint. Frumvarpið telur 138 blaðsíður með fylgiskjölum. Þetta er — og hvar er hæstv. forsætisráðherra nú? — lengsta uppsagnarbréf sem ég hef nokkru sinni séð, uppsagnarbréf sem beinist gegn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Til þess voru refirnir skornir. Þess vegna var frumvarpið lagt fram. Við vitum að ríkur vilji hefur staðið til þess innan ríkisstjórnarinnar, af einstökum hæstv. ráðherrum og meðal annars af hæstv. forsætisráðherra, að fækka ráðherraembættum og losa sig við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hæstv. forsætisráðherra lagði slíkt frumvarp fram á síðasta þingi. Hæstv. forsætisráðherra mátti hins vegar lúta í gras í því máli og sætta sig við að kaflanum sem sneri að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var hent út; en þó með skilyrðum, fyrirheitum af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar á þeim tíma um það að þessu máli yrði komið í höfn þó síðar væri.

Nú segir hæstv. forsætisráðherra að þetta sé ekki raunverulegt uppsagnarbréf heldur megi vænta þess síðar, þegar hæstv. forsætisráðherra kemur með nýtt lagafrumvarp um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra, og væri gott að fá svar við því í andsvari á eftir: Hvað er að frétta af því máli? Hvenær stendur til að leggja fram frumvarp um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það iðnaðarráðuneytinu? Eru ekki einhverjar fréttir af því máli? Gerir hæstv. forsætisráðherra sér ekki grein fyrir því eins og við hin að nú fer mjög að styttast í þingtímanum? Það er eftir sem svarar hálfum mánuði af þingfundum á Alþingi Íslendinga, það er þegar komið langt fram yfir alla lögmæta fresti í þessum efnum. Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, og ég hlýt að treysta því að hún komi upp í andsvar á eftir og svari því, hvað sé að frétta af þessu með sameiningarnar, hvenær ætlunin sé að þetta mál verði lagt þannig fram.

Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé mikill misskilningur í gangi og menn séu að ímynda sér eitthvað þegar þeir segja að hér sé brugðið upp dulargervi til að reyna að skipa málum á þann veg að hægt sé að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið og fækka ráðherrum um tvo og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra víki úr ríkisstjórninni. En hæstv. forsætisráðherra virðist alltaf vera á flótta út úr þingsalnum þegar maður talar en ég ætla eftir sem áður að segja: Það er enginn misskilningur í þessu máli. Þetta mál er ekki hægt að misskilja. Þetta mál er svo augljóst og hæstv. forsætisráðherra veit það, af því að hún er jafnvel enn þingreyndari en ég. Það blasir við hverjum þeim sem les frumvarpið til hvers refirnir eru skornir, til hvers frumvarpið er lagt fram.

Þungamiðjan í frumvarpinu kemur reyndar fram í athugasemdum, en það er sú hugmynd að hægt sé að skipa ráðuneytunum og marka þeim sess með öðrum hætti en gert hefur verið. Ég ætla ekki að fara yfir það hvernig það er núna, það þekkjum við öll. En það er verið að hverfa frá þeirri skipan sem hefur verið við lýði frá árinu 1969. Ég skal segja það strax að það er einnar messu virði að ræða það fyrirkomulag sem þarna er verið að leggja til og ég ætla út af fyrir sig ekki að segja að ekki megi ræða það eða skoða. En nú vill bara svo til að það eru aðrir þingmenn og aðrir hæstv. ráðherrar sem hafa látið í ljósi mjög afdráttarlausa skoðun á því fyrirkomulagi sem verið er að leggja til. Hér er ég að vísa til formanns VG, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

Í ræðu sem hæstv. fjármálaráðherra, þá hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, flutti 4. júní 2007 vék hann að slíkum hugmyndum. Og hvað sagði hann? Hann vakti athygli á því að á sínum tíma hefði það verið að frumkvæði hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, að gerðar voru tillögur um Stjórnarráðið. Hæstv. fjármálaráðherra segir svo um tilgang þess frumvarps á sínum tíma, með leyfi virðulegs forseta:

„Það var það að þessi mál voru komin í algjörar ógöngur vegna þess að í pólitískum hrossakaupum við stjórnarmyndanir á 5., 6. og 7. áratugnum var verkefnum hent á milli ráðuneyta vegna þess að menn höfðu þar algjörlega óbundnar hendur.“

Hæstv. fjármálaráðherra, þá hv. þingmaður, er með öðrum orðum óvart að lýsa frumvarpi sem ríkisstjórn sem hann situr í átti síðar meir eftir að leggja fram. Síðar segir í ræðu hæstv. fjármálaráðherra:

„Það varð að koma einhverri festu í þessi mál og lagði til [þ.e. Bjarni Benediktsson] að ráðuneytum yrði hvorki komið á né þeim skipt nema með lögum frá Alþingi.“

Síðan segir hann, félagi hæstv. forsætisráðherra í núverandi ríkisstjórn, formaður annars stjórnarflokksins, og var þá að víkja að ákveðnum tillögum frá ríkisstjórn sem við hæstv. forsætisráðherra sátum í á þeim tíma, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég er því ekki á neinum villigötum í því þegar ég bendi á að hér er verið að boða breytingu í áttina aftur til þess að framkvæmdarvaldið geti hringlað með þetta skipulag án aðkomu Alþingis þótt það sé að vísu bara að því leytinu til að þarna er lagt til að menn geti sameinað ráðuneyti þá er það samt breyting í þessa átt.“

Það er með öðrum orðum alveg ljóst mál — nema hæstv. fjármálaráðherra hafi þá skipt um skoðun, sem mér er ekki kunnugt um, og hann hefur að minnsta kosti ekki haft fyrir því að greina okkur á Alþingi frá því — að hæstv. fjármálaráðherra hefur með mjög afdráttarlausum hætti, eins og ég hef verið að rekja, talað gegn þungamiðjunni í þessu frumvarpi, frumvarpi um Stjórnarráð Íslands sem hæstv. forsætisráðherra flytur og er uppnefnt stjórnarfrumvarp en er það að sjálfsögðu ekki.

Það er ýmislegt annað sem hægt er að velta upp í þessu sambandi en mig langar aðeins að nefna eitt. Hér er talað um nýtt fyrirkomulag við ráðningu starfsmanna og yfirmanna í ráðuneytunum. Talað er um að þegar verið sé að ráða í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra skuli ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Nú vitum við að hæstv. forsætisráðherra hefur fylgt þessari línu. Hæstv. forsætisráðherra setti niður matsnefndir og valnefndir þegar verið var að ráða skrifstofustjóra sem frægt er orðið í forsætisráðuneytinu. Nú spyr ég: Finnst hæstv. forsætisráðherra ekki, í ljósi þeirrar sneypufarar sem hæstv. ráðherra fór í því máli, ekki ástæða til að endurskoða þetta verklag, hvort ekki sé ástæða til að skoða hvort þetta sé endilega besta fyrirkomulagið, hvort ekki þurfi að íhuga þetta mál frekar. Nú er ég ekki að tala fyrir því að menn fari í einhverjar ómarkvissar og óskynsamlegar pólitískar ráðningar. Ég held þvert á móti að það hafi ekki almennt verið hátturinn í stjórnsýslunni. Almennt talað höfum við á að skipa prýðilegu fólki í stjórnsýslunni vegna þess að við erum með litla stjórnsýslu og við höfum hvorki efni né ráðrúm til að reyna annað en að hafa þar almennilegt fólk. Mín reynsla í gegnum áratugina er sú að að mestu leyti er þarna um að ræða prýðilegt fólk.

Það vill bara þannig til að það fyrirkomulag sem hér er verið að boða er hreint ekki óumdeilt. Ég vek t.d. athygli á ákaflega athyglisverðri grein eftir Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing, sem við mörg hver þekkjum héðan úr Alþingi, í Morgunblaðinu laugardaginn 26. mars sl. Hann vekur þar athygli á því að það fyrirkomulag sem verið er að boða í þessu frumvarpi kalli á margs konar matskennd vinnubrögð. Hann segir sem svo að mat á frammistöðu sé huglægt og hann vekur athygli á því að þau matskenndu atriði sem lögð séu til grundvallar í því ferli sem hæstv. forsætisráðherra er að boða séu miklu fleiri en áður var og vægi þessara matskenndu atriða sé ekki alltaf metið. Það er líka athyglisvert sem hann bendir á að menntun skipti t.d. litlu máli í ráðningum í samtímanum og starfsreynsla einnig.

Tími minn er á þrotum. Því miður tókst mér ekki að víkja ítarlegar að ýmsum efnisatriðum frumvarpsins eins og ég hafði hugsað mér í upphafi. En þegar málin eru komin í þá stöðu sem þau eru í í dag, þegar umræðan hefur verið að leiða í ljós að þetta mikla frumvarp er komið í algerar ógöngur — hæstv. forsætisráðherra hefur ekki hugmynd um hvort það verði samþykkt — er ekki annað hægt (Forseti hringir.) en reyna að varpa ljósi á þá grafalvarlegu stöðu (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn er komin í (Forseti hringir.) með þetta grundvallarfrumvarp um sjálft (Forseti hringir.) Stjórnarráð Íslands.