139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti eftir að svara spurningu hv. þingmanns frá því fyrr í umræðunni um mögulegan meðbyr frá stjórnarandstöðu við þetta mál. Ég nefndi það áðan að ég er búinn að hlusta nokkuð vel á þessa umræðu mestan hluta dagsins, m.a. á ræður frá stjórnarandstæðingum og ég hef ekki heyrt eina einustu ræðu sem gefur mér tilefni til að ætla að það sé meðbyr með þessu máli frá stjórnarandstöðunni. Ég leit bara þannig á að þetta væri eins konar neyðarblys frá hæstv. forsætisráðherra þegar hún hrópaði eftir því að stjórnarandstaðan ætti að tosa þetta mál að landi því að það væri komið í algjörar hafvillur.

Varðandi það hvað reki menn til að koma fram með þetta frumvarp hefur hæstv. forsætisráðherra auðvitað gert grein fyrir sínum sjónarmiðum í þessu sambandi. Ég fullyrði samt að það sé skrifað algjörlega á vegginn að þetta eru viðbrögð hæstv. forsætisráðherra og meiri hluta ríkisstjórnarinnar vegna þess að þau höfðu ekki pólitískt afl til að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið og þetta eru viðbrögðin við því.