139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er merkileg umræða um að vera eða vera ekki stjórnarfrumvarp. Hún er dálítið sérstök, en engu að síður merkileg. Það kann að vera að við séum að fara hér inn í breytingar í íslenskum stjórnmálum sem lúta að því að hér ætli að sitja eitthvað áfram önnur minnihlutastjórn. Nú ætlar hins vegar enginn að bakka hana upp mér vitanlega þannig að það eru væntanlega mjög spennandi mánuðir fram undan.

Við höfum rætt töluvert um þingræðið og mikilvægi þess að styrkja það. Það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og hefur margoft komið fram í ræðum að það sé mikilvægt að verja þingið, styrkja það og styrkja þingræðið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að meginefni þessa frumvarps sé í þá veru að styrkja þingræðið. Getur verið að það styrki þingræðið að taka út það sem er í 4. gr. núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands, að kveðið skuli á um það í lögum hvernig eigi að skipa ráðuneytunum og hvað þau eigi að heita? Það skiptir verulegu máli hvað ráðuneytin heita. Það segir til um innihald ráðuneytisins, hvað þar er á ferðinni. Ég sakna þess t.d. að sveitarstjórnarmálum sé ekki hærra gert undir höfði í heitum á ráðuneytum til að undirstrika mikilvægi sveitarstjórnarstigsins. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi það heiti áfram.

Úr því að talið berst að því að hv. þingmaður hafi töluvert mikla reynslu af því að gegna ráðherradómi á Íslandi, væntanlega ekki annars staðar, langar mig að spyrja hann hvort (Forseti hringir.) hann sé sammála því að það skipti töluverðu máli að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið (Forseti hringir.) standi eins og það er í dag.