139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með þingræðið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans um þingið og þingræðið. Af lestri bara fyrstu fimm, sex greinanna kemur mjög skýrt í ljós að í raun er verið að ganga á það hlutverk sem Alþingi hefur haft varðandi þessa ráðstöfun, varðandi lög um Stjórnarráð Íslands.

Við hljótum að spyrja okkur á sama tíma: Hvað gengur þeim til er leggja slíkt frumvarp fram? Jú, það er framkvæmdarvaldið sem kemur með þetta frumvarp inn í þingið. Ásælist þá framkvæmdarvaldið frekari völd og fleiri tækifæri til að ráða sínum málum án aðkomu þingsins?