139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sumar þær ræður sem haldnar hafa verið hér í dag hafa á köflum verið æðisérkennilegar eins og t.d. ýmislegt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Einars Guðfinnssonar. Hv. þingmaður heldur því fram — og ég hef nú sjaldan heyrt sérkennilegri málflutning — að það frumvarp sem hér er flutt sé lengsta uppsagnarbréf, eins og hann orðaði það, sem hann hefði séð og er þá að tala um að þetta beinist að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þvílík fjarstæða. Þetta frumvarp hefur ekkert með setu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn að gera. Þetta er ekki sett fram í þeim tilgangi að stofna atvinnuvegaráðuneyti. Hv. þingmaður veit það mætavel og það hefur margoft komið fram í þessari umræðu.

Þetta er stjórnarfrumvarp. Einn ráðherra, hæstv. sjávarútvegsráðherra, hefur lýst andstöðu við frumvarpið. (Gripið fram í.) Það hefur gengið til þingflokkanna. Einhverjir þingmenn úr öðrum þingflokknum, þingflokki Vinstri grænna, hafa einhverja fyrirvara á málinu. Athugasemdir við einstakar greinar hafa komið fram hjá einum þingmanni sem hér hefur talað, þeim þingmanni sem nú situr í forsetastól. Það er ekki þar með sagt, eins og hv. þingmaður nefndi, að hún ætli að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Síðan ætti hv. þingmaður að líta líka til þess að þegar velferðarráðuneytið var stofnað sem og innanríkisráðuneytið var í nefndarálitinu farið yfir það hvernig málsmeðferðin yrði varðandi stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Sumir hafa haldið því fram hér í dag að málið hafi verið tekið út af borðinu. Hv. þingmaður ætti að lesa það sem fram kemur í nefndarálitinu sem fylgdi þessum frumvörpum, þar var einmitt talað um að áhersla yrði lögð (Forseti hringir.) á undirbúning að þessu atvinnuvegaráðuneyti og farið í (Forseti hringir.) samráðsferli varðandi það mál. Það hefur verið gert. (Forseti hringir.)