139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem svardögum hæstv. forsætisráðherra fjölgar, þeim mun augljósara finnst mér nú til hvers refirnir voru skornir. Þegar maður skoðar þetta mál í því sögulega ljósi sem nauðsynlegt er að gera blasir við skýr mynd.

Hver er bakgrunnurinn? Hann er svona: Ætlunin var að sameina sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyti. Hæstv. forsætisráðherra lagði fram frumvarp um það. Hæstv. forsætisráðherra var gerður afturreka með málið. Það næsta sem við heyrum af því er að hér er lagt fram frumvarp um Stjórnarráð Íslands þar sem m.a. er kveðið á um að valdið til þess að skipa ráðuneytunum sé tekið frá Alþingi og fært hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni sem hefur þá vald á þessu máli og þarf ekki lengur að kalla eftir meirihlutasamþykkt Alþingis. Þetta er auðvitað þannig. Ég er eldri en tvævetur og hæstv. forsætisráðherra líka og við vitum að það var ekki verið að skrifa þetta inn í þennan lagatexta hérna, en þetta er skrifað á vegginn. Það sjá auðvitað allir hvað um er að ræða.

Það var ekki bara um það að ræða að einn hæstv. ráðherra hafi lýst sig andsnúinn. Annar hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að standa að afgreiðslu málsins úr ríkisstjórn og fyrir liggur að það eru ekki bara einstakir þingmenn hjá Vinstri grænum sem hafa gert fyrirvara um einstakar greinar. Hér hefur verið upplýst að framlagning málsins hafi verið heimiluð sem er þá væntanlega ekki skuldbindandi og það hafi verið lýst yfir almennum fyrirvörum gagnvart málinu. Þeir fyrirvarar sem m.a. hafa verið raktir hér hafa komið fram í þingræðu, m.a. hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, eru mjög grundvallandi. Það eru engin smáatriði, heldur grundvallarþættir. Hæstv. forsætisráðherra ætti bara að fara að gera sér grein fyrir því að þetta mál er komið á pólitískan vergang.