139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins að öðru sem þessu tengist og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og hefur verið til umræðu í dag. Það er þingmannanefndin, nefnd íslenskra þingmanna og fulltrúa úr utanríkismálanefnd Alþingis annars vegar og fulltrúa úr Evrópuþinginu hins vegar, sem funduðu hér í síðustu viku. Sá fundur hefur töluvert verið í umræðunni. Eitt af því sem átti að leggja fram á þeim fundi var ályktun sem fól í sér að þessir þingmenn, Evrópuþingmenn og íslensku þingmennirnir, fögnuðu því að verið væri að ráðast í breytingar á Stjórnarráðinu og fögnuðu því að einhverju leyti að verið væri að leggja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið niður.

Ég velti því fyrir mér og langar að bera það undir hv. þingmann hvað honum finnst um að Evrópusambandið sé yfir höfuð — en nú hefur komið fram að þetta plagg hefur orðið til í utanríkisþjónustunni meðal embættismanna í Brussel — að skipta sér af því með hvaða hætti við skipuleggjum Stjórnarráð okkar. Er eðlilegt að Evrópusambandið sé að skipta sér af því hvernig ráðherraskipan sé hér og sé yfir höfuð að álykta um það? Hver telur hv. þingmaður að séu rökin fyrir því að Evrópuþingmenn og þessi sameiginlega þingmannanefnd er varðar Evrópusambandsumsóknina álykti um það að skynsamlegt sé að leggja niður ráðuneyti á Íslandi? Hver eru rökin? Sér hann einhver rök fyrir því? Það kom kannski ekki nægilega vel fram í máli hv. þingmanns hvaða rök hann telji að búi þar að baki. Hver er hugsunin? Ég átta mig ekki á því og það er kannski ágætt að fá að vita hvernig hv. þingmaður metur það.