139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu deili ég áhyggjum hv. þingmanns, sem fram komu í andsvari, um að verið sé að færa völd frá þinginu til framkvæmdarvaldsins. Ég get líka tekið undir það með hv. þingmanni að rauði þráðurinn í þessu frumvarpi, eins og það blasir við mér, sé að færa forsætisráðherranum meiri völd en hann hefur samkvæmt núgildandi reglugerðum um Stjórnarráðið og þeim venjum og reglum sem um framkvæmdarvaldið gilda.

Það hefur verið tilhneiging hæstv. forsætisráðherra að innleiða meira foringjaræði í íslenskum stjórnmálum, bæði gagnvart eigin flokki og samstarfsflokknum, en við höfum áður séð og kynnst að ég hygg. Þetta frumvarp er eitt dæmi um það. Ég get nefnt önnur frumvörp sem eru til umfjöllunar á þinginu þar sem þessi tilhneiging kemur líka fram. Í upplýsingalögum er gengið býsna langt í að framselja forsætisráðherra einum vald sem hann hefur ekki samkvæmt núgildandi lögum. Fleiri dæmi má nefna. Allt ber að sama brunni. Með því að taka andlitin af ráðuneytunum, eins og gert er í þessu frumvarpi, er verið að straumlínulaga allt stjórnkerfið. Andlitin á fagráðherrunum eru tekin burt þannig að hæstv. forsætisráðherra gín yfir öllu. Það mun þá birtast með þessum lögum, verði frumvarpið samþykkt, og í starfsháttum hæstv. núverandi (Forseti hringir.) forsætisráðherra.