139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi umræða fari fram núna. Málið fer væntanlega til allsherjarnefndar þegar umræðan hér klárast. Við höfum svo oft rekið okkur á það á þinginu, og á þessu þingi, að málin eru ekki alveg jafnaugljós og skýr þegar þau koma til 1. umr. og menn vilja vera láta eða reyna að telja okkur trú um. Minnist ég þá enn og aftur þess þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði hér 3. júní 2009: Nei, nei, það er ekkert verið að skrifa undir neina Icesave-samninga. Svo fengum við samningana í andlitið 5. júní. Þingmenn hafa ýmislegt lært og hafa því vara á sér þegar núverandi ríkisstjórn er annars vegar.

Eitt af því sem tengist því sem ég hef áður nefnt og kallað eftir svörum við er sú tilhneiging sem mér virðist vera í þessu frumvarpi og ég hef miklar áhyggjur af, þ.e. að verið sé að auka miðstýringu, ekki sé bara verið að færa ákveðna stjórnsýslu og völd frá Alþingi heldur líka frá öðrum ráðherrum og ráðuneytum til forsætisráðuneytisins eða embættisins. Ég undirstrika að þegar ég tala um forsætisráðherra og forsætisráðherraembættið á ég ekki endilega við þann forsætisráðherra sem nú situr. Það er vitanlega verið að tala um embættið sem slíkt á hverjum tíma. Miðstýringin er mjög áberandi í frumvarpinu. Hún er í anda Evrópusambandsins, sem við höfum mjög oft nefnt í þessari umræðu og hv. þingmaður nefndi í sambandi við drögin að þeirri ályktun sem átti að samþykkja, og við vitum að þau ríki Evrópusambandsins sem ráða þar lögum og lofum, Þýskaland og fleiri, hafa viljað draga meiri stjórn efnahagsmála miðlægt til Brussel. Þetta frumvarp ber keim af því, það er alveg ljóst.