139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem mælt hefur verið fyrir og rætt í dag. Þetta er viðamikið lagafrumvarp sem snertir mjög marga þætti í íslenskri stjórnsýslu eins og rækilega hefur komið fram í umræðunum.

Það hefur líka komið fram að sá sem hér stendur lýsti því yfir í ríkisstjórn að hann styddi ekki frumvarpið og áskildi sér rétt til að greiða atkvæði gegn því eða einstökum greinum þess þegar til afgreiðslu þess kæmi á Alþingi. Afstaða mín í því efni hefur legið fyrir og hefur ekki komið í bakið á neinum, enda enginn haldið því fram.

Í byrjun vil ég segja að mér finnst ekkert endilega að allir þurfi fyrir fram að vera sammála um alla þætti frumvarps þó að það sé frá ríkisstjórn. Það er jú Alþingi sem afgreiðir frumvarpið og afgreiðir lög frá þinginu. Mörgum frumvörpum sem koma þangað er breytt í meðförum þingsins og eru kannski orðin með allt öðrum hætti en ríkisstjórn afgreiddi þau frá sér eða einstakir ráðherrar í henni. Ég lít því frekar á það sem styrk lýðræðisins að þess sé ekki krafist að allir gangi í takt, það sé sama hvort einn gengur eða tíu. Þó að hinu almenna markmiði með þeirri stefnu sem ríkisstjórn rekur á hverjum tíma sé fylgt er hvert einstakt mál ekki endilega þannig. Ég lít ekki á þetta mál sem eitthvert slíkt mál og alls ekki. Ég segi það bara hér að ég tel þetta ekki vera forgangsmál á lokadögum þings, en ætla að öðru leyti ekkert að finna að því.

Ég vil nefna örfá atriði sem ég hef fyrir rökstuðningi mínum í þessu máli. Í fyrsta lagi, eins og hér hefur komið fram, hafa umræddar lagabreytingar það að meginmarkmiði að þjappa saman ráðuneytum, færa vald til forsætisráðherra, eins og hér hefur komið fram, færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Þegar maður er hluti af framkvæmdarvaldinu vill maður helst fá sem mest völd, ég er sjálfsagt sama marki brenndur og aðrir í þeim efnum. En ég var í stjórnarandstöðu í allmörg ár og mér blöskraði yfirgangur framkvæmdarvaldsins í þeim ríkisstjórnum sem þá sátu. Ég var þá í minni hluta, var stjórnarandstöðuþingmaður, og mér blöskraði þá beiting framkvæmdarvaldsins. Mér er því mjög umhugað um að aðkoma Alþingis að meðferð mála sé styrkt. Þróunin á ekki að vera í hina áttina, að færa áhrif og völd Alþingis til framkvæmdarvaldsins, enda er það eitt af því sem fundið var að í rannsóknarskýrslunni og öðrum skýrslum sem hafa verið til meðferðar hér í þinginu eftir bankahrunið — það hafði ægilegar afleiðingar það valdastjórnsýslukerfi sem þá ríkti og við viljum ekki endurvekja það eða halda því gangandi, við fengum nóg af því. Þetta er einn sá þáttur sem ég legg áherslu á. Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og ég var þegar ég var í stjórnarandstöðu og tel að ekki eigi að breyta þessu.

Þegar gerðar eru viðamiklar breytingar á stjórnsýslunni og skipan framkvæmdarvaldsins er ég alveg sömu skoðunar og þegar verið var að keyra í gegn stjórnsýslubreytingar, sameiningu ráðuneyta og annað í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég gagnrýndi þá vinnubrögðin og taldi þau ekki rétt. Afstaða mín er alveg óbreytt þó að þetta sé að einhverju leyti látið viðgangast, sem mér finnst þetta frumvarp endurspegla. Samvinna þingflokka og þingmanna um veigamiklar breytingar á stjórnsýslunni og framkvæmdarvaldinu á að vera víðtæk.

Það er eitt sem líka hefur verið gagnrýnt í umræðum og útgefnum skýrslum eftir hrunið, en það er skortur á formfestu. Að sjálfsögðu þarf að vera sveigjanleiki og sjálfsagt að athuga breytingar en það þarf líka að vera formfesta og boðleiðir þurfa að vera klárar, ég tel að þetta frumvarp túlki það ekki. Mér finnst það til dæmis ekki eiga að vera þannig — bara svo að maður nefni það, af því að ítarlega hefur verið farið í það hér — að hægt sé með einni handsveiflu að flytja málefni og málefnaflokka á milli ráðuneyta í miðri stjórnsýslu á miðju kjörtímabili eða á miðjum starfstíma ríkisstjórnar. Það á að vera meiri formfesta í þeim efnum. Þó að málum sé ólokið í ráðuneytum á að flytja þau með og ljúka í nýju ráðuneyti, mér finnst það ekki vera rétt, en aðrir geta haft aðrar skoðanir á því og þeir bera þær þá inn í þingið og þingið tekur afstöðu til þess.

Það eru því mörg atriði í þessu sem mér finnst vera á þann veg að ég get ekki fellt mig við það en ég virði skoðanir annarra í þeim efnum. Ég er áfram sömu skoðunar og þegar ég var í stjórnarandstöðu hvað varðar umgengni við stjórnsýsluna og skipan bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.

Allmikið hefur verið rætt um stöðu ráðuneyta og nafngift þeirra. Ég er þeirrar skoðunar að mjög varlega eigi að fara í að stokka upp stjórnsýsluna við þær aðstæður sem við höfum búið við undanfarið. Það eru næg önnur verkefni til að takast á við en vera að fara út í einhverjar óvissuferðir, það er ekki forgangsmál af minni hálfu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur verið gert að umtalsefni og ég hef lagt áherslu á það að við höldum því ráðuneyti. Við sjáum núna, ekki hvað síst eftir hrunið, hve þessir atvinnuvegir eru mikilvægir í íslensku samfélagi, fyrir íslenskt atvinnulíf, fyrir íslenskan efnahag og fyrir ímynd þjóðfélagsins, bara heitið á ráðuneytinu. Óháð persónulegri stöðu minni, hvort ég sé ráðherra eða ekki eða ráðherra í þessu ráðuneyti eða hinu, tel ég að við eigum að halda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til að vera hluti af þeirri ímynd og þeim verkefnum sem íslensk stjórnsýsla ber ábyrgð á.

Það hefur líka verið minnst á það, og ég vísa í flokksráðssamþykkt hjá Vinstri grænum, að öll samtök innan sjávarútvegsins og landbúnaðarins eru andvíg þessu Evrópusambandsaðildar- eða -umsóknarferli. Þau hafa fullan rétt á því á sama hátt og aðrir hafa sýnt mikla eindrægni og vilja til að komast inn eins hratt og þeir geta. Það er afstaða þeirra og ég virði það en allir þekkja afstöðu mína í þessum efnum. En það er líka mjög varhugavert að ætla að veikja stjórnsýslulega stöðu landbúnaðar og sjávarútvegs þegar svona er þó að það sé ekki nema með því einu að leggja niður nafnið eða leggja ráðuneytið niður, þó að verkefnin séu færð undir annað nafn. Þetta er bara einörð afstaða mín í þessu máli og ég óska eftir því að hún sé virt; ég er ráðherra þessara málaflokka og flyt áherslur þeirra í þessum efnum.

Ég vil líka benda á, af því að það kom til umræðu áðan, að í fyrstu drögum frumvarpsins sem flutt var í sumar, um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, átti að fella sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið inn í þann samrunaferil sem þá var, en það var fellt út úr frumvarpstextanum þannig að vilji Alþingis var klár í þeim efnum.

Frú forseti. Ég ætla ekkert að halda hér langa ræðu, en vil þó benda á hve varhugavert getur reynst að róta í stjórnsýslunni og vitna þar til reynslu frá Norðurlöndunum. Í Danmörku var um tíma óskaplega vinsælt að færa málaflokka til sitt á hvað og enginn vissi hver var ráðherra hvers málaflokks á hverjum tíma. Það var landbúnaðarráðherrafundur fyrir tveimur árum á milli Norðurlandanna og þá gat ráðherra ekki komið frá Danmörku því að menn vissu ekki hver var landbúnaðarráðherra þá, hver fór með landbúnaðarmálin, af því að einhver uppstokkun var í gangi. Það var mjög bagalegt fyrir þá þó að við hefðum glott yfir því. Mér fannst sú reynsla ekki vera neitt sérstaklega upplífgandi því að það er mjög mikilvægt að stjórnsýslan sé skýr og að við vitum hvar hver málaflokkur er vistaður og verður vistaður í næstu framtíð, að ekki sé hægt að breyta því með stuttum fyrirvara eða eftir því hvernig manni finnst kaupin best gerast á eyrinni á hverjum tíma.

Ég tel að svona mál eigi að vinna með öðrum hætti. Ég sé til dæmis ekki að stjórnsýslan eigi að byggjast upp á aðstoðarráðherrum. Ég vil bara vera ráðherra fyrir málaflokkinn, bera ábyrgð á honum sem slíkur og að ráðuneytið sé skipað á þann veg að maður hafi yfirsýn yfir það og þurfi ekki að vera að ráða aðstoðarráðherra. Þá erum við bara að lengja feril stjórnsýslunnar, auka fjarlægðina frá almenningi yfir til þess sem er með framkvæmdarvaldið hverju sinni. Ég er ekki sammála því en aðrir geta haft sín rök fyrir því, og ég virði það.

Ég ítreka að ég sé ekkert að því þó að þetta mál komi hér inn í þing þó að ég sé því andvígur eða styðji ekki einstaka þætti þess. Þingið tekur sína sjálfstæðu ákvörðun í þeim efnum. Ég vildi bara láta þetta koma hér fram, um afstöðu mína. Sjálfsagt er hægt að rökstyðja hana með fleiri rökum en ég læt þetta hér duga.