139. löggjafarþing — 116. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir einlæga og hreinskilna ræðu þar sem hann lýsti viðhorfum sínum til þessa máls mjög skýrt. Ég er sammála því viðhorfi hæstv. ráðherra að það sé óskynsamlegt að gera grundvallarbreytingar á stjórnsýslunni ekki síst meðan á aðlögunarviðræðum eða aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins stendur. Við þær aðstæður sé mjög mikilvægt að halda í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til að hægt sé að gæta hagsmuna þessara tveggja lykilatvinnugreina í samningaviðræðum við Evrópusambandið af því að í þessum málaflokkum eigum við hvað minnst sameiginlegt með Evrópusambandinu.

Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að lýsa því aðeins hversu mikið álag er á ráðuneyti þessara tveggja atvinnugreina út af Evrópusambandsumsókninni og hversu mikið af krafti ráðuneytisins fari í að halda uppi vörnum fyrir þær atvinnugreinar.