139. löggjafarþing — 116. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum komin yfir í annað mál en lýtur að vinnunni varðandi Evrópusambandsumsóknina, (Gripið fram í: Er það annað mál?) en hv. þingmaður kýs að tengja þau saman. Vissulega er mikið álag á ráðuneytinu í þessum efnum. Það er ljóst að sjávarútvegsmálin, landbúnaðarmálin, matvæla-, hollustu- og heilbrigðismálin eru stærstu málaflokkarnir sem verið er að fara í gegnum, að bera saman lög og reglugerðir Evrópusambandsins og íslensk lög og reglugerðir í þeim efnum. Þar er langmesti munurinn á eins og við þekkjum og því er mjög mikilvægt að vanda þá vinnu. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið kappkostað að sú vinna væri sem faglegust og vönduðust, enda hefur ekki komið gagnrýni á hana. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að pólitískt mæðir líka mjög mikið á (Forseti hringir.) ráðuneytinu og þessum atvinnugreinum (Forseti hringir.) í þessum efnum, sem við reynum líka að standa undir.