139. löggjafarþing — 116. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin tilviljun að ég tengi þetta frumvarp við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ástæðan er sú að það er mikil samsvörun á milli þess sem fram kemur í þessu frumvarpi og þeim pappírum og plöggum sem samin hafa verið í Brussel og send til Íslands. Þar nægir að nefna þau ályktunardrög sem lögð voru fram á sameiginlegum fundi íslenskra og evrópskra þingmanna í síðustu viku þar sem það er sérstaklega tekið fram að Evrópusambandið og þingmannanefndin fagni því að verið sé að gera breytingar á stjórnsýslunni og sérstaklega varðandi sameiningu ráðuneyta. Þetta er ekkert sem ég finn upp hjá mér heldur blasir við öllum sem kynna sér þessi gögn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það sé samsvörun á milli þessa frumvarps um Stjórnarráð Íslands (Forseti hringir.) og aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu. Hver eru viðhorf hans til þess?