139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að blanda mér inn í umræðuna um samgöngurnar. Það er alltaf athyglisverð umræða þegar við förum í samgöngumálin. Ég tek undir með Sunnlendingunum um að það þurfi að horfa vel til þess hvað er arðbært og hvað ekki þegar lögð eru á aukagjöld eða skattar auknir á þá sem keyra þessa vegi, en við hljótum líka á sama tíma að horfa til jafnræðis þegnanna, jafnræðis þeirra sem búa á Íslandi, og þá horfi ég til þeirra sem búa við slæmar eða nánast engar samgöngur.

Ég var að hugsa um það undir þessum ræðum áðan að líklega megi færa fyrir því rök að t.d. séu betri samgöngur við Vestmannaeyjar en suðurfirði Vestfjarða þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn, þegar horft er til þess að oft og tíðum er ekki hægt að fara landleiðina og aðeins ein ferjusigling á dag er í boði fyrir vestan.

Ég hlýt líka að kalla eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að fjalla um það frumvarp sem sá er hér stendur er aðili að, og 1. flutningsmaður er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, um að samþykkja lög er leyfi veglagningu í gegnum Teigsskóg til að koma okkur af stað í vegaframkvæmdir sem eru svo bráðnauðsynlegar til að þeir er búa á sunnanverðum Vestfjörðum, og í raun Vestfirðingar allir, geti komist í mannsæmandi samgöngur um þau landsvæði þar sem þeir búa. Það er algjörlega óásættanlegt að hlutirnir verði (Forseti hringir.) reknir áfram með þeim hætti sem hér er gert.