139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að taka undir þau orð og taka þátt í þeirri umræðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal velti upp með ríkisábyrgðir. Ríkisábyrgðir ríkissjóðs Íslands eru sá hluti af skuldastýringu ríkissjóðs sem eru einfaldlega í mjög miklum ólestri og í raun einsdæmi meðal OECD-ríkja hvernig skuldastýringu ríkissjóðs Íslands er háttað. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir stöðu Íslands út á við í alþjóðlegu samhengi, miklu meira máli en t.d. hið gamla og vonandi brátt gleymda Icesave-mál.

Skuldastýring ríkissjóðs Íslands er ekki í samræmi við það sem OECD kallar „best practices“ og það er þetta sem erlendir ráðamenn, embættismenn og fjármálafyrirtæki horfa á þegar verið er að meta skuldir ríkissjóðs meðal annars. Hér er gríðarlega mikið af óskráðum ríkisábyrgðum í umferð, 141 milljarður sem fjármálaráðherra er búinn að lofa að bakka upp vegna SPRON/Dróma annars vegar og Straums – Burðaráss hins vegar þegar eignir þeirra voru færðar inn í Arion banka og Íslandsbanka. Hér eru ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar inn í framtíðina upp á 300–400 milljarða sem ekki er gerð nægilega grein fyrir. Hér eru ríkisábyrgðir á Íbúðalánasjóði sem stendur valtur á fótunum um þessar mundir.

Lánasýsla ríkisins var á sínum tíma lögð niður á röngum forsendum og vegna innri valdabaráttu embættismanna í stjórnsýslunni en ekki vegna faglegra sjónarmiða. Það er kominn tími til, frú forseti, að Alþingi og fjárlaganefnd — og ég sakna þess að sjá ekki formann fjárlaganefndar í salnum — taki á þessu máli af skörungsskap og reyni að koma skuldastýringu ríkissjóðs Íslands í faglegan farveg sem hún er ekki í í dag.