139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræður um samgöngumál. Menn hafa rætt forgangsröðun samgönguframkvæmda og rætt bæði jarðgangaframkvæmdir og vegaframkvæmdir í því sambandi. Eins og margoft hefur komið fram í mínu máli — ég er kannski farinn að hljóma eins og Kato gamli — vil ég af því tilefni minna á ástand vega og skort á samgöngumannvirkjum á Vestfjörðum.

Það er orðið þannig að Vestfirðir eru algert olnbogabarn í íslensku samfélagi, ekki síst í samgöngulegu tilliti. Á sama tíma og við erum að ræða framkvæmdir eins og Vaðlaheiðargöng á slóðum þar sem samgöngur eru góðar fyrir, til að stytta vegalengd um 16 kílómetra, þá er á milli 400 og 500 kílómetra krókur milli byggðarlaga á Vestfjörðum yfir vetrartímann vegna þess að ekki eru jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og ekki fært nema 3–4 mánuði ársins, vegalengd sem tekur tvo klukkutíma að aka yfir sumartímann en 7–8 klukkutíma í vondum veðrum á vetri.

Hv. formaður samgöngunefndar sagði áðan að forgangsröðun samgöngumannvirkja hlyti að ráðast af fjármunum. Það er hins vegar aumt þegar peningar eiga að ráða fullkomlega forgangsröðun í samfélagi því að grunnþjónusta eins og samgöngur á að sjálfsögðu að ráðast af þörf. Öryggismál skipta miklu þegar samgöngur eru annars vegar og það hlýtur að snúast um öryggi að hafa boðlega vegi. Og það snýst um fleira. Það snýst um líf byggðarlaga, flutningskostnað, þjónustu og samkeppnishæfni. (Forseti hringir.) Ég árétta að ég lít svo á að að ýmsu sé að hyggja í þessu tilliti.