139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma upp og blanda mér aðeins í umræðu um samgöngumál. Þau lúta vitaskuld að mannréttindum, þ.e. að geta ekið um örugga vegi milli heimilis og skóla eða heimilis og vinnu. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að ástandið er klárlega einna verst á Vestfjörðum. Það er okkur til skammar og þar ættum við að reyna að hysja upp um okkur buxurnar í öryggismálum vegfarenda frá því sem nú er.

Mönnum verður mjög tíðrætt um hverjir eru hættulegustu vegarkaflarnir á Íslandi. Nú vill svo til að sá sem hér stendur hefur nýlega fengið í hendur svar svart á hvítu við spurningunni um það hvaða kaflar eru hættulegastir hér á landi — 25 kaflar á þjóðveginum sem hafa hvað hæsta tíðni slysa með meiðslum annars vegar og með eignatjóni hins vegar. Þar kemur í ljós, og ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta, að af þeim 25 vegarköflum sem eru hættulegastir á Íslandi eru 9 í Norðvesturkjördæmi, 5 í Norðausturkjördæmi, 6 í Suðurkjördæmi og 5 á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar horft er til þeirra vegarkafla sem hafa hvað hæsta slysatíðni hvað meiðsli varðar eru þeir allir úti á landi. Þetta er klárt og kvitt frá Vegagerðinni og frá umferðaryfirvöldum og menn þurfa að hafa þetta í huga við gerð samgönguáætlana vegna þess að við hljótum að hafa mannslíf í fyrirrúmi þegar við ákveðum hvar við eigum að auka umferðaröryggi frá því sem nú er. Það er ekki einasta þörf á því að komast hratt á milli svæða, við þurfum líka að komast örugglega á milli svæða. Það held ég að allir þingmenn hljóti að vera sammála um. Þess vegna er mjög brýnt og þakklátt að fá þessar upplýsingar upp á yfirborðið (Forseti hringir.) til að geta tekist á við þessa umræðu af þokkalegu viti.