139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðu um samgöngumál og tel það ákaflega brýnt að við gerum það öðru hverju. Varðandi þá umræðu sem spannst við hv. þm. Björn Val Gíslason, formann samgöngunefndar, um þær framkvæmdir sem hann kallaði flýtiframkvæmdir, að það gætti ákveðins misskilnings varðandi þær þá held ég að það sé einmitt rétt að það gæti ákveðins misskilnings hvað það varðar.

Það hefur sannast í þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fyrir bæði hæstv. fjármálaráðherra og þáverandi samgönguráðherra að um er að ræða flýtigreiðslur ef á að leggja veggjöld á — og ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar þess efnis að ekki komi til greina að leggja veggjöld á vegi sem í dag standa fyllilega undir kostnaði við framkvæmd og lagningu.

Þar sem við höfum takmarkað fjármagn óttast ég að framkvæmdir muni stöðvast. Mér finnst því mikilvægt að menn taki þessa umræðu. Ég held að tillaga sem hefur komið fram, frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og fleirum, um að setja á laggirnar sérstakan stórverkefnasjóð, þar sem tekin yrði t.d. hálf eða ein króna af bensínlítranum og sérstök veggjöld yrðu lögð á 2+2 vegi alls staðar á landinu eða 1+1 göng — ef allir mundu greiða, um yrði að ræða einhvers konar jafnaðargjald, og við værum að bæta öryggi og gera leiðir greiðfærari, gæti það orðið til þess að hleypa fleiri verkefnum af stað. Það gæti gert það að verkum að þær gleðilegu framkvæmdir sem nú eru t.d. á Suðurlandsvegi stöðvist ekki og jafnframt yrði tekið til við Vesturlandsveg, (Forseti hringir.) Reykjanesbraut, Teigsskóg, Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og Hornafjarðarbrú svo að eitthvað sé nefnt.