139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrst varðandi þær spurningar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal beindi til mín um ábyrgðir á innstæðum. Það er skoðun mín að það sé pólitísk ábyrgð á innstæðum. Þannig hefur það alltaf verið. Eða hvernig skildu menn umræðuna í þingi haustið 2008? Voru sett lög um ríkisábyrgð þá? Samþykkti Alþingi einhverja heimild varðandi ríkisábyrgð? Nei, það gerði það ekki. Það var pólitísk yfirlýsing af hálfu þáverandi ríkisstjórnar sem núverandi ríkisstjórn hefur ítrekað. Þannig ábyrgð hvílir á þeim innstæðum. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það og þetta hefur verið margsinnis rætt í þinginu. Ef ég man rétt hafa hæstv. ráðherra og hv. þingmenn áður svarað hv. þingmanni þessu.

Í öðru lagi varðandi það sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi áðan um vinnulag í samgöngunefnd. Hann er 1. flutningsmaður, ef ég man rétt, frumvarps um að ríkið taki að sér að fjármagna Helguvíkurhöfn, og því var vísað í mjög eðlilegan farveg. Það stendur yfir endurskoðun á hafnalögum. Það var ráðist í Helguvíkurhöfn að ríkinu forspurðu. Það var enginn samningur gerður við ríkið um fjármögnun Helguvíkurhafnar eða hlut ríkisins í kostnaði við Helguvíkurhöfn á sínum tíma. (ÁJ: Þingmaðurinn segir ...) Það var farið í þessa framkvæmd að ríkinu forspurðu og það þýðir ekkert að koma núna og krefja ríkið um hlut í framkvæmdum sem ríkið hefur ekki átt neina aðild að. Málið er í fullkomlega eðlilegum farvegi og það var samþykkt af öllum nefndarmönnum í samgöngunefnd, hverjum einasta nefndarmanni, að setja það í þennan farveg, að vísa því í endurskoðun hafnalaga.

Varðandi önnur mál sem hér hafa verið rædd á sviði samgöngumála þá sagði hv. þm. Jón Gunnarsson áðan að það vantaði bara viljann til verksins, bara drífa í hlutunum, koma þessu bara af stað. Það var nánast eins og menn nenntu ekki að fara í vegaframkvæmdir. En það verður ekkert gert án fjármuna. Ríkissjóður var tæmdur eins og hv. þingmanni á að vera kunnugt um. (Forseti hringir.) Það verður ekki farið í neinar framkvæmdir án fjármuna. Annaðhvort verða þeir teknir úr ríkissjóði eða þeir verða innheimtir með sérstökum gjöldum og það stendur til að gera. (Gripið fram í.) Öðruvísi verður þetta ekki gert.