139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

samgöngumál -- verklag í nefndum -- ríkisfjármál.

[14:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Suðurk. að þetta var tímabær og fín umræða, yfirlitsumræða um stöðu ýmissa samgönguverkefna. Ég ítreka það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði áðan að það vantar hvorki viljann né verkefnin. Það vantar leiðir til að fjármagna stórar framkvæmdir til að halda þeim áfram og þar fannst mér hv. þm. Jón Gunnarsson komast að kjarna málsins. Hann sagði: Við skulum ráðast í kerfisbreytingar á innheimtu umferðar-, bensín- og eldsneytisgjalda. Það er að verða gagnger breyting á bílaflotanum, rafmagnsbílar, vetnisbílar, alls kyns umferðar- og ökutæki sem eru knúin öðru en hinum hefðbundnu eldsneytisgjöfum sem við höfum notað síðustu áratugina. Bæði það og þessi staða samgöngumála kalla á kerfisbreytingar á innheimtu gjaldanna og við höfum til þess fjögur til fimm ár, eins og kom fram áðan og kom fram á fundi innanríkisráðherra með sveitarstjórnar- og þingmönnum um daginn, sem vitnað var til áðan.

Það þarf að liggja fyrir formleg ákvörðun um að farið verði í kerfisbreytinguna, að gjaldtökunni verði breytt og hún fari út úr eldsneytisgjöfunum, hvort sem það er bensín, vetni eða rafmagn, inn á notkunina og að þar liggi forsendur þess að hægt sé að ráðast í framkvæmdir sem séu fjármagnaðar með þeim gjöldum sem af umferðinni renna. Það kom fram í umræðunni áðan að umferðin um Suðurlandsveg mundi t.d. standa fullkomlega undir því að ljúka breikkun og tvöföldun vegarins og meira en það meira að segja. Þannig gæti hver vegarkafli staðið undir sérstökum framkvæmdum ef því væri að skipta og við gætum framfylgt þeim vilja sem er til verkefnanna með slíkri fjármögnun. En þessi ákvörðun þarf að liggja fyrir og þá er hægt að fara af stað af fullum krafti í þessar framkvæmdir.