139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kannski réttast að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir hér, gefa yfirlýsingar um það strax að ekki verði farið í þær breytingar sem eru hér hvað mest gagnrýndar, þær er snúa að færslu á völdum eða úrræðum til forsætisráðherra, og horfa á aðrar greinar í staðinn og annað innihald frumvarpsins. Það er hins vegar alveg ljóst að býsna margar breytingar sem hér eru lagðar fram ganga út frá þeirri breytingu sem er fremst í frumvarpinu, þ.e. varðandi 2., 3. og 4. gr. sérstaklega. Aðrar breytingar ganga töluvert út á að þær gangi eftir.

Ég held að ástæðan fyrir því að um þetta er svo mikið rætt nú þegar við 1. umr. sé sú að þingmenn hafa mjög sterkar skoðanir á því hvar þessi valdmörk eru milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins og hvaða úrræði framkvæmdarvaldið á að hafa. Ég held að það mótist töluvert af því efnahagshruni sem hér varð, þeim lærdómi sem við drögum vonandi af því og þeirri staðreynd að mörgum þingmönnum finnst, eins og frumvarpið lítur hér út núna, sem ekki sé verið að svara þeim áleitnu spurningum sem þar komu fram. Það er mjög bagalegt að vera hér með 140 blaðsíðna frumvarp, heila bók, og (Forseti hringir.) ekki sé svarað til fulls því sem kallað er eftir í rannsóknarskýrslunni.