139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki nógu miklar umbætur, skulum við orða það frekar, ef hugmyndin er að bregðast við rannsóknarskýrslu Alþingis. Ef hugmyndin er sú að gera einfaldlega Stjórnarráðið og allar ákvarðanir í Stjórnarráðinu þannig að þær séu einfaldari eða auðveldari fyrir forsætisráðherra á hverjum tíma má sjálfsagt fullyrða að það komi fram í þessu frumvarpi. En það er vitanlega hægt að gagnrýna þau vinnubrögð sem höfð eru uppi í þessu máli, eins og hv. þingmaður gerði hér.

Ég vitnaði áðan í ræðu hæstv. núverandi fjármálaráðherra frá 2007 þar sem hann gagnrýndi harkalega hvernig staðið var að breytingum á þeim tíma. Það kann vel að vera að það hafi verið réttmætt hjá hæstv. fjármálaráðherra þá, en við hljótum þá að ætlast til þess svona stuttu síðar að formaður Vinstri grænna og sú stjórn sem hann situr í hafi þá lært af því og muni eftir þeirri ræðu.

Við getum líka spurt okkur eins, ágætir þingmenn, af því að það kom hér upp í gær: Hvernig hefðu viðbrögðin orðið hér ef forsætisráðherra sem eitt sinn var og heitir Davíð Oddsson, sá ágæti maður, hefði lagt fram frumvarp sem þetta þar sem verið er að færa forsætisráðherra vald til að ráðstafa ráðuneytum og færa verkefni milli þeirra? Hver hefðu viðbrögð okkar orðið? Ég veit alveg hver mín viðbrögð hefðu orðið. Ég hefði örugglega fengið gæsahúð og talað hér mjög hart gegn þessu máli líkt og ég geri nú. Við getum ekki lagt völd sem þessi í hendur á einum manni, einum embættismanni eða hvað við köllum hann, stjórnmálamanni sem kallast forsætisráðherra á hverjum tíma. Við getum það ekki, við þingmenn verðum að standa í lappirnar núna og halda í þau völd sem við höfum.