139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem staðið hefur upp úr í allri þessari umræðu og síðasti ræðumaður hamrar á er tvennt: Í fyrsta lagi að það sé verið að flytja þetta frumvarp að ósk ESB, að það séu skilaboð frá Brussel um að breyta Stjórnarráðinu, og í öðru lagi að hér sé forsætisráðherra að færa sér alræðisvald.

Ég tel að hv. þingmaður sem heldur slíku fram verði að rökstyðja þetta, að hann verði að rökstyðja það, eins og hann hélt hér fram, að þetta mál varðaði hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason. Hann verður að rökstyðja það að hér sé verið að færa verkefni og vald frá öðrum ráðherrum til forsætisráðherra. Hann verður að rökstyðja það að hér sé verið að færa til og frá að vali forsætisráðherra þau verkefni sem hún vill. Ef forsætisráðherra vaknar einn morguninn og dettur í hug að færa einn málaflokk á milli ráðuneyta geti hann það sisvona eða jafnvel tekið ráðuneyti til sín og fært það til sinna ráðherra. Hvers lags bull er þetta, slíkur málflutningur? Þetta er ekki boðlegt í sölum Alþingis, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Og að ráðherra sé að flytja mál þar sem hún hafi alla aðra ráðherra á sínu bandi. Einn þingmaður hélt því hér fram að það væri gengið svo langt að forsætisráðherra væri að skapa sér einræðisvald. Þetta er fjarri sanni og ég skora á hv. þingmann að sanna það sem hann segir hér.

Því er líka haldið fram að hér séu fyrirvarar af hálfu Vinstri grænna. Gott og vel. En hlustaði hann á þá þingmenn Vinstri grænna sem héldu hér tölu í gær og töldu að það ætti að ganga lengra í mörgum tilvikum en frumvarpið gerir ráð fyrir? Staðreyndin er sú að hér er verið að styrkja stjórnsýsluna, skapa þar nauðsynlegan sveigjanleika og betri (Forseti hringir.) stjórnsýslu en við höfum. Þetta er unnið í samræmi við skýrslu meðal annars rannsóknarnefndar Alþingis og ég bið hv. þingmenn að lesa sex töluliði úr þeirri skýrslu sem finna má í frumvarpinu.