139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:26]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna framsetningu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hefur brýnt til margra góðra atriða í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Það er nú svo að Samfylkingin er einhver versta sending sem lýðveldið Ísland hefur fengið í fangið frá lýðveldisstofnun. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Kveðjurnar til Alþingis og til Íslands á sínum tíma voru kunnar úr Arnarfirði. Nú koma þær úr Dýrafirði úr óvæntustu átt, því að þar hefur venjulega verið mjög gott, skynsamt verkreynt fólk og hlýtt. Það búum við ekki við í dag og þess vegna þarf að nota mannamál til að fjalla hér um ákveðna þætti.

Við viljum hafa leikreglur klárar. Við viljum hafa klárar reglur sem fólk skilur og virðir. Við viljum að málflutningurinn sé skynsamur og taki tillit til þátta. Allt okkar samfélag byggist á samkomulagi, öðruvísi er það ekki samfélag.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi erum við að brjóta niður grunninn í stjórnkerfi landsins, sá fræjum óvissu, tortryggni og kvíða. Það er ljóst að alltaf má bæta en þetta fyrirkomulag byggist á því að fjandinn sé laus og það hefur ekki reynst gott í myrkviði okkar fortíðar þegar menn trúðu á drauga og forynjur. Það á að vera liðin tíð.

Ég vil spyrja hv. þingmann um leið og ég deili með honum áhyggjum af trausti á Samfylkingunni: (Forseti hringir.) Er ekkert jákvætt sem hann getur séð við Samfylkinguna?