139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:30]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra gleymi alltaf eða skilji ekki eða vilji ekki skilja að Íslendingar eru veiðimannasamfélag. Og þó að Evrópusinnarnir hér hlæi í salnum, sem hafa hlotið bakteríuna í Brussel, mega þeir gera það, en þetta er ekkert gamanmál. Íslendingar eru eina veiðimannasamfélagið í Evrópu, það er okkar sérstaða, (Gripið fram í.) eina sjálfstæða veiðimannasamfélagið í Evrópu. (Gripið fram í: Er það gott?) Það eru hlunnindi fyrir okkur, já, og meðal annars sá hv. þingmaður sem hér greip fram í hefur lifað á því og verið dekraður á því kerfi og komist til manns vegna þess að sjávarútvegurinn hefur skilað auði inn í samfélagið til þess að mennta og bæta.