139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[16:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef tækifæri til að taka til máls í annað skipti í þessari umræðu. Mig langar til að beina til fjármálaráðherra þeirri spurningu hvenær hann sjái fyrir sér að svör berist frá ESA um ívilnunarþáttinn í þeim skattbreytingum sem voru samþykktar á Alþingi í fyrrahaust. Það er ljóst að uppbygging gagnavera er í anda þeirrar áherslu sem við viljum leggja á grænt hagkerfi. Á vettvangi iðnaðarnefndar og efnahags- og skattanefndar Alþingis hefur verið og mun verða fylgst með þessu málefni áfram.

Ég vil þó draga það saman sem ég tel lykilatriði í uppbyggingunni til frambúðar, þ.e. að við gætum að því að skattumhverfi gagnavera sé samkeppnishæft þannig að þau geti boðið samkeppnishæft verð en að við stígum ekki svo langt að hér sé um einhvers konar niðurgreiðslu að ræða. Þess má þó geta að við þurftum að skoða skattahlutann sérstaklega vegna þess að Íslendingar stóðu fyrir utan Evrópusambandið. Innan Evrópusambandsins gilda aðrar reglur um þessi mál, en nóg um það.

Við eigum sömuleiðis að gera íslenskum gagnaverum kleift að geta unnið saman með þeim aðilum sem hafa yfir bandbreiddinni að ráða. Ég tel að hagsmunir þessara aðila fari saman, bæði til lengri sem og skemmri tíma. Þannig þurfa aðilar að setjast niður og átta sig á því hvert gagnaveraiðnaðurinn stefnir á Íslandi og hvernig uppbygging hans geti farið saman við arðsemi við bandbreiddina. Þá er ég hér sérstaklega að snerta á Farice-málum. Menn verða að geta búist við því að bandbreiddin til Íslands sé eilítið dýrari, en um leið geta menn mætt þeim kostnaðarauka fyrir viðskiptavinina gegnum aðra kostnaðarliði eins og ég rakti hér áður, þ.e. með ódýrari og grænni orku. Um leið tek ég undir þau orð fjármálaráðherra að íslensk gagnaver þurfa að geta plumað sig í samkeppninni á viðskiptalegum forsendum. Það er mikilvægt að ríkisvaldið sleppi af þeim hendinni á einhverjum tímapunkti.